Það er tilgangslaust að skila auðu

Ástráður Haraldsson formaður landskjörstjórnar sagði nýverið að til stæði að halda til haga fjölda auðra atkvæða og halda þeim aðskildum frá ógildum. Þetta er vel. Nú er hægt að bæta einni víddinni við atkvæðagreiningu og 10 mínútum við kosningasjónvarpið. Þetta gerir fátt annað.

Sem ég stend í kjörklefanum staðráðinn í að skila auðu til að mótmæla handvömm í hagstjórn undanfarinna ára hugsa ég til þess með ánægju að nú muni þeir Geir og Björgvin sko skammast sín. Ég sest fyrir framan sjónvarpið um kvöldið til að fylgjast með atkvæðatalningu og bíð eftir að heyra í þeim félögunum á einhverjum tímapunkti um kvöldið lýsa því yfir að þeim þyki þetta leitt og að þeir vildu taka allt aftur og bæta sitt ráð. O nei. Það gerist ekki. Þáttastjórnendur gerast duglegir við að rýna í fjölda auðra atkvæða og komast að ýmsum niðurstöðum. 

Ein þeirra er að fjöldi auðra atkvæða sé klárlega afrakstur Evrópustefnu stjórnvalda síðustu ár.

Önnur þeirra er að auðu atkvæðin séu líkast til skilaboð til Sjálfstæðisflokksins um að stuðningsmenn hans geti ekki hugsað sér að kjósa sinn gamla flokk en, á sama tíma, geti heldur ekki hugsað sér að styðja neinn annan.

Margar fleiri skýringar eru líklegar á fjölda auðra atkvæða hvort sem þeim mun fjölga eða fækka. Það sem ég meina er að kjósandi skilar auðu í von, veikri von, um að einhver muni túlka sitt auða atkvæði á réttan hátt mun verða fyrir vonbrigðum. Það að skila auðu er sambærilegt við að afsala sér kosningarétti sínum tímabundið til þess að gefa einhverja yfirlýsingu sem verulegar líkur eru á að verði misskilin.

Ef þú vilt senda skilaboð skaltu mæta á kjörstað og merkja við einhvern þeirra stjórnmálaflokka sem eru í framboði. Allt annað er vanmáttugt.

Ef þú vilt refsa Sjálfstæðisflokknum skaltu kjósa einhvern hinna. Það eru skýr skilaboð. Ef þú vilt ekki búa við vinstri áþján næstu 1-2 árin skaltu kjósa Sjálfstæðisflokkinn. 

Umfram allt, ekki skila auðu. Það er gagnslaust og skilar niðurstöðu sem mun ekki geðjast þér. 


mbl.is Margir ætla að skila auðu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Dómsdagsvitleysa

Hvað heldur fólk að borgarahópurinn standi fyrir? Ekkert og allt. Ekkert og allt er það sem fólk var að mótmæla á Austurvelli. Einn var að mótmæla stjórnvöldum og annar að mótmæla bankahruni. einn mótmælti að Davíð sæti sem Seðlabankastjóri (ég bendi á að sá norski hefur engu áorkað) og aðrir mótmæltu háum stýrivöxtum eða bara háu verði í Bónus.

Allt þetta fólk fann fara um sig sælu- og samstöðuhroll þar sem það stóð og mærði Hörð Torfason fyrir sitt dásamlega framtak. Það eitt átti þetta fólk allt sameiginlegt. Annað ekki. Ansi margir stóðu svo eins og illa gerðir hlutir þegar á svið komu sirkus atriði eins og átta ára stúlka sem hélt fyrirlestur um ástandið eða þegar á sviðinu stóðu róttækir kommúnistar og boðuðu byltingu. Það var alls ekki þetta sem fólkið kom til að klappa fyrir. Vandinn var bara að það að standa í stórum samstöðuhópi sem gargaði saman í hóp-sefjun og klappa ekki fyrir framtíðarsýn litlu stúlkunnar, ja það væri lúalegt. Því klappaði fólk fyrir hverju og hverjum sem stóð á sviðinu og allir fundu til einhvers konar samstöðu. Þetta voru heit augnablik sem fólk á eftir að ylja sér við meðan það stritar fyrir hækkuðu sköttunum sem það er um það bil að kjósa yfir sig.

Núna er þessi vitleysa fyrir bí. Fólk búið að fá flest af slagorðun mótmælaskiltanna í gegn og hvað blasir við? Ekki rassgat. Stæk vinstri stjórn er búin að hafa völdin í hartnær þrjá mánuði og áorka engu. Hún hefur gert fólki dálítið sársaukaminna að verða gjaldþrota, en ekki koma í veg fyrir gjaldþrotið. Hún hefur reyndar líka yfirtekið geysilegan fjölda fyrirtækja sem hafa farið á hausinn á valdatíma sínum vegna þeirra eigin aðgerðaleysis, en hún kom ekki í veg fyrir gjaldþrot þeirra. Stýrivextir eru enn stjarnfræðilega háir og enn hefur ekkert verið gert til að lina þjáningar fólksins þrátt fyrir himinhá loforð þess efnis.

Steingrímur gargaði eftir upplýsingum um raforkuverð til álfyrirtækjanna en þegar hann er í aðstöðu til að upplýsa um það þegir hann þunnu hljóði.

Jóhanna Forsætisráðherra, sem ekki getur komið fram fyrir hönd þjóðarinnar erlendis af því að hún talar ekki ensku, heimtaði afnám verðtryggingar lána þegar hún þurfti ekki að bera ábyrgð á afleiðingunum. Núna þegar hún er í aðstöðu til þess að gera það gerir hún 100% ekkert. Reyndar ætlar hún að gera það seinna, já seinna ef hún fær umboð til þess.

Þetta er sá veruleiki sem blasir við ef fólki dettur í hug að greiða öðru hvoru af verstu vinstri öflunum atkvæði sitt eða skila auðu. Þessi hópur hefur boðað skattahækkanir, launalækkanir og inngöngu í ESB. Þetta þrennt er það sem þau eru búin að lofa. Þau eru reyndar ekki alveg sammála um þetta síðasta en eru sammála um að vera ósammála eins og Atli Gíslason orðaði það í sjónvarpinu í gær. Þau ætla að sækja um og ekki sækja um inngöngu í júni skv. Jóhönnu málakonu. Í júni ætlar hún að fara til Brussel og annað hvort sækja um inngöngu eða ekki.

Borgarahreyfingin hefur sama kauðalega yfirbragð og Borgaraflokkur Alberts Guðmundssonar á sínum tíma og Frjálslyndi flokkurinn seinna. Svona eins konar óánægju samkrull úr Sjálfstæðisflokknum. Fólk sem hefur ekki neitt til að sameina annað en að vera á móti. Það er ekki nóg að bara vera á móti. Að vera á móti er ekki stefna. Það er ekki einu sinni hægt að sameinast um það til lengdar. Það að vera á móti er ekki lífsskoðun eða áhersla sem maður byggir á. Fólkið sem til samans myndar þennan óánægjuhóp mun fljótt reka sig á að þeirra áherslur eru ólíkar í öllum helstu atriðum og mjög fljótt mun skerast í odda á nánast öllum sviðum. Atkvæði greitt þessum hópi er ónýtt. 


mbl.is O-listi fengi fjóra
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baksýnisspegillinn er ágætur en hann sýnir bara það sem er að baki.

Umræðan í öllum fjölmiðlum og alls staðar í bloggheimum er á einn veg. Hver gerði hvað og af hverju. Það fer lítið fyrir vangaveltum um hvernig það fólk og flokkar sem í framboði muni standa sig í framtíðinni. Þetta er undarlegt þar sem það er framtíðin sem skiptir öllu.

Ég hef verið að velta vöngum yfir hvor skila beri auðu eða greiða atkvæði. Það að skila auðu er vissulega að taka afstöðu. Spurningin er kannski helst hvort ég er tilbúinn í að fórna kosningaréttinum til þess eins að gefa einhverja yfirlýsingu sem síðan enginn veit hver er og fólk túlkar hver með sínu höfði. Ég er farinn að hallast að því að það sé rangt.

Það hvernig einhver þingmaður stóð sig í fyrra eða hingað til segir mér lítið um hvernig sá þingmaður mun standa sig í framtíðinni við aðstæður sem við höfum aldrei séð áður. Því er svo komið að ég held að það væri afar misráðið að skila auðu.

VG: Það kemur eðlilega ekki til greina að kjósa kommúnista í neinu formi, það er glapræði að hleypa einstrengingslegum öfundarsjónarmiðum róttækra vinstrimanna sem boða skattahækkanir og launalækkanir sem lausnir að stjórnvelinum. Fólk sem ætlar að koma ekkjuskattinum á aftur og setja hátekjuskatt á allt sem er yfir meðallaunum á ekki að koma nálægt því að stjórna Íslandi.

Fylkingin þekkir bara eitt ráð í bráð og lengd og það er ESB. Flokkur sem hefur ekki fleiri úrræði kemur ekki til greina.

Frjálslyndi flokkurinn er ekki lengur til og farið hefur fé betra.

Borgara-hvað-sem-það-heitir er samansafn af ósamstæðum mótmælendum þar sem sýnist sitt hverjum án eiginlegrar stefnu og kemur þess vegna aldrei til greina.

Ástþór og kó nenni ég ekki að útskýra.

Eftir standa Framsóknarflokkurinn sem boðar 20% niðurfærslu og Sjálfstæðisflokkurinn með sambærilega áherslu. Þarna þarf ég núna að velja á milli.


Ástþór lýðræði ritskoðar eigin blogg

Ég setti inn á blogg Ástþórs Magnússonar ábendingu til upplýsingar um hvernig hann misfer með tilvísun í hugleiðingar Daða Ingólfssonar og kallar þær vísindalegar staðreyndir. Þetta þorir Ástþór ekki að birta.

Þessi ábending er sambærileg þeirri sem finna má á mínu bloggi hér að neðan og því er athyglisvert að maðurinn skuli leyfa sér að kalla RÚV ritskoðað.


Þetta kallar Ástþór staðreyndir

Á hádegisráðstefnu SKÝ nýverið hélt Daði Ingólfsson afar fróðlegt erindi. Glærurnar úr erindi hans má sjá hér á síðu SKÝ http://www.sky.is/images/stories/2009_Rafraenar_kosningar/4_Dadi.pdf Ég bendi fólki á síðu 4 í þessu erindi. Þetta notaði Ástþór Magnússon á borgarafundinum á Nasa í gærkvöldi og vísaði í sem staðreyndir. Hann sagði eitthvað á þá leið að maður hefði sannað að 94% af loforðum fyrir kosningar væri svikið eftir kosningar. Ég var á þessari ráðstefnu og það var Ástþór líka. Daði margendurtók að þetta væri algerlega skot út í loftið en samt vísar friðardúfan í þetta sem sannleika máli sínu til stuðnings.

Þessi maður kallar eftir stuðningi í næstu Alþingiskosningum. Nú þarf fólk að vara sig á lýðskrumara aldarinnar.


Því miður er þetta ekki búið.

Ég held reyndar að lögreglan hafi staðið lítið eitt rangt að þessari rýmingu á Vatnsstíg. Nær hefði verið að setja einstefnuloka á húsið. Meina öllum inngöngu en hleypa út þeim sem út vilja fara. Ástandið hefði lagast fljótlega þegar þessi skríll þarf að láta þjóðfélagið fóðra sig.Nú er ástandið svo undarlegt og öfugsnúið að manni flökrar.

Ég hrökk illilega við þegar ég sá að Salvör Gissurardóttir sagði í sínu bloggi í fyrradag (http://salvor.blog.is/blog/salvor/entry/853115/) að henni fyndist þessi hústaka bara sjarmerandi. Þetta er ótrúlegt! Einn af frambjóðendum framsóknarfokksins í næstu Alþingiskosningum mærir þessa lögleysu. Það er bara sjarmerandi að ungir anarkistar slá eign sinni á hús annarra í trássi við lögin. Fyrir hverju ætlar Salvör að tala fari svo að hún nái kjöri? Ef hún ætlar að tala máli skrílræðis á Íslandi er eins gott að hún skýri það bara strax þannig að hægt sé að varast að kjósa hana.

Utan á húsinu á Vatnsstíg hafði hústökufólkið hengt borða með áletruninni "Heimilið er heilagt en eignarrétturinn ekki" Þarna gætir þvílíks grundvallarmisskilnings að mann setur næstum hljóðan. Fyrri hluti þessarar setningar er sannarlega réttur en sá seinni alrangur. Eignarrétturinn er vissulega heilagur, að minnsta kosti fyrir nánast sérhverjum Íslendingi sem ekki var staddur á Vatnsstíg. Vandinn sem þetta fólk stendur frammi fyrir er að þau halda að þetta tvennt stangist á. Það gerir það ekki. Þeim er fullkomlega heimilt að stofna sér sitt heilaga heimili en bara ekki í eign annarra án þeirra samþykkis.

Nú eru þau farin að leggja á ráðin um að ráðast inn í önnur hús. 


mbl.is Lögregla rýmir Vatnsstíg 4
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óskar svara

Hefði þá ekki verið áhrifaríkara að standa upp á leiðtogafundi NATO og tala hátt og skýrt og krefjast svara?

Furðulegt að láta sér detta í hug að senda Össur á þennan leiðtogafund. Össur, sem virðist hafa haldið að Obama hafi komið sérstaklega til að láta taka mynd af sér með honum og sníkja að fá að koma til Íslands, lætur nú í það skína að hann sé svo stór kall að Brown hafi forðast fundi við sig skömmustulegur á svip.

Trúðsháttur.


mbl.is Vilja viðbrögð frá Brown
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það verður skammlíft

Nú er bara um að gera að njóta þessaarar tilfinningar meðan að endist. Hún verður skammlíf.

Ef fram fer sem horfir mun þjóðin kjósa yfir sig þverustu sort af kommúnista og gengdarlausan sósíalista sem munu mynda verstu hugsanlegu ríkisstjórn eftir næstu kosningar.

Þjóðin verður skattpínd af landi brott af þverhausum sem sjá rautt ef einhver dirfist að sýna snefil af dugnaði. Það má bara lifa í voninni að þetta ástand lifi ekki heilt kjörtímabil.


mbl.is Væntingar neytenda aukast
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ofgreiddi arð

Ég stóðst ekki mátið að skella inn þessu sem ég fékk í t-pósti áðan

Simmi


Simmi reiknar ekki með að arðgreiðslur fyrir árið 2008 verði nema kannski helmingur af arði ársins 2007.

Eigandi Söluturns Simma greiddi sjálfum sér arð af rekstri félagsins á síðasta ári, 10 milljarða króna, þrátt fyrir að söluturninn hafi ekki skilað nema 5.000 króna hagnaði.

„Þetta var nú bara tala sem ég áætlaði. Ég var ekkert að reikna þetta í drep. Ég hafði rosalega góða tilfinningu fyrir rekstrinum, var með margar mjög sterkar spólur í leigu, Spædermann þrjú og svona – þannig að ég ákvað bara að tríta mig aðeins,“ segir Simmi, en viðurkennir um leið að hann hafi aðeins farið fram úr sér.

„Ég vona bara að stjórnvöld sýni þessu skilning og komi með pening inn í reksturinn. Það hefur aldrei verið jafn mikilvægt og nú að halda þessum litlu vídeóleigum gangandi.“


Dæmið lítur svona út

Stillum upp smá raunveruleikadæmi um stöðuna á í þjóðfélaginu.

Tökum eitthvert fyrirtæki í góðum rekstri. Þetta fyrirtæki kaupir þjónustu og vörur víða. Þessa þjónustu og vörur notar fyrirtækið til að framleiða vörur til endursölu. Fyrirtækið þarf fjármögnun úr bankakerfinu og hefur fengið hana í gegnum tíðina frá viðskiptabanka sínum (t.d. Landsbankanum), sem og viðskiptavinir fyrirtækisins.

Þetta hefur allt gengið bara ljómandi vel í gegnum tíðina. það sem núna hefur gerst er að bankarnir fara í þrot. Þeirra þrot er ekki þeirra einkamál því að afleiðing af þeirra hörmungum er að bankarnir hætta að fjármagna atvinnulífið í landinu. Þegar þeir hætta að fjármagna atvinnulíf landsins eru ekki lengur neinir peningar í umferð. Enginn getur greitt neinum fyrir neitt. Útistandandi skuldir milli fyrirtækja fást ekki greiddar. Sem afleiðing af því fær bankinn heldur ekki greitt fyrir útlán sem veitt hafa verið. Vont ástand sem má rekja beint til afglapa bankanna sjálfra.

Hvað er til ráða? Hvað eiga bankarnir til bragðs að taka? Viti menn, þeir eiga ráð. Bankinn var geysilega forsjáll hér í den. Hann stofnaði fyrirtæki í samvinnu við sparisjóðina sem þeir ráku saman. Þessu fyrirtæki var gefið erlent, latínuskotið nafn og því var ætlað að sjá um að innheimta útistandandi kröfur svo bankinn gæti fjarlægst það leiðindastarf sem atar nafn hans auri. Ef fyrirtæki skuldar bankanum fé sendir bankinn kröfuna til innheimtufyrirtækisins. Innheimtufrekjan bætir ofan á kröfuna upphæð að eigin geðþótta og krefur skuldunauta greiðslu. Ef kröfur og áfallinn kostnaður er ekki greiddur er höfðað mál með tilheyrandi fjárnámi og frekari kostnaði, að ekki sé talað um tímasóun og skráningu á vanskilaskrá.

Fyrirtæki sem ekki fá kröfur greiddar eða fyrirgreiðslu í bönkum fara beinustu leið í gjaldþrot.

Þetta er ljótt dæmi en vitið þið hver það er sem er að hegða sér svona núna? Það er Ríkið!

Ríkið á bankana, Ríkið á innheimtufyrirtækin, Ríkið á sýslumennina, ríkið er að kyrkja atvinnulífið í landinu í stað þess að blása í það lífi.

Viðskiptaráðherra hefur sett fram málamyndaplástur til að mýkja ásýnd innheimtu og láta líta út fyrir að búið sé að koma böndum á þann kostnað sem milliinnheimtur geta hlaðið á. Sá plástur er í formi reglugerðar frá 21. janúar 2009. Sú reglugerð er svo götótt að enginn fer eftir henni. Sem dæmi um gat sem hvaða innheimtuaðili sem er siglir í gegnum á fullum hraða má nefna síðustu málsgrein 10. greinar sem hljóðar svo "Hafi innheimtuaðili gert bindandi samning við viðskiptavin um innheimtu krafna fyrir ákveðnar fjárhæðir má víkja frá ákvæðum reglugerðar enda sé samningurinn í gildi við útgáfu reglugerðarinnar og uppsagnarákvæða verður ekki neytt eða þau eru ekki virk. Þessi undanþága gildir þó ekki lengur en eitt ár frá gildistöku reglugerðarinnar." (REGLUGERÐ um hámarksfjárhæð innheimtukostnaðar o.fl. 037/2009)

Sem sagt, ef krafa var í raun útistandandi fyrir gildistöku þessarar reglugerðar þarf bara ekkert að fara eftir henni.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband