Himinhrópandi pínlegt

Á meðan forsætisráðherra, sem hefur engan metnað til að verða formaður fylkingarinnar, lætur dextra sig með tvíræðum og misvísandi svörum við grátklökkum kröfum um að taka að sér starfið sitja aðrir klúbbfélagar vandræðalega hljóðir. Núna þorir enginn að bjóða sig fram gegn Jóhönnu þó hún hafi ekki boðið sig fram. Það mætti eiginlega kalla það að hún hafi boðið sig aftur. Dálítið öfugsnúið að þurfa að bjóða sig ekki fram.

Vandamálið liggur í því að ef einhver stendur upp og ætlar fram er á það litið sem beina árás á ráðherrann ráðalausa og hugheilar óskir kyndilbera jafnaðarstefnunnar um að fá í fylkingarbrjóst eina einstaklinginn sem hefur ítrekað neitað beiðnum um framboð.

Það ískrar í mér.

Það hafa sannarlega ekki mörg nöfn dúkkað upp. Helst Dagur B. Er það virkilega eins augljóst eins og mér sýnist það vera að það sé bara ekki meira úrval af fólki sem gæti náð kjöri í þetta starf? Sjálfur held ég ekki að Dagur B. ráði við djobbið en það er annað mál. Ég man reyndar ekki eftir neinum í svipinn sem gæti það og spennuþrungin biðin eftir að ráðherrann taki af skarið og segi klárt af eða á gerir þeim sem hugsanlega gætu hugsað sér að sækjast eftir kjöri erfiðara um vik.


mbl.is Biðin eftir Jóhönnu á enda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Baráttu- og bjartsýnissöngvakeppni hins nýja lýðveldis

RÚV er með í gangi eina af sínum fínu lagakeppnum. Ég er þeirrar skoðunar að þátttöku í þessari keppni hefði átt að takmarka við lagahöfunda sem ekki hafa framfæri sitt af lagasmíðum. Ég er svosem ekki búinn að forma útfærslu á þessu en ég er viss um að það er hægt.

Hvernig væri að halda einu sinni keppni sem atvinnumennirnir, sem fylla núna nánast öll sæti á þátttöku-listanum, tækju ekki þátt í. Köllum það bara áhugamannakeppni. Keppni fyrir þá sem eru ekki í bransanum (hvernig sem það svo útleggst) . Það hlýtur að vera hægt að finna góða skilgreiningu á svoleiðis hópi. Það mun sjálfsagt myndast eitthvert grátt svæði en það er bara úrlausnarefni.

Ástæða þess að ég minnist á þetta er að það laumast að mér að ekki megi móðga einhverja af þessu atvinnufólki sem sendi inn lag. Þetta lyktar dálítið af því að nefndin sem valdi lög til þátttöku hafi ekki viljað velja einn atvinnumanninn en annan ekki og á þann máta raða þeim á einhvern hátt eftir gæðum. Þetta eru allt félagar á einn eða annan hátt og því erfitt að gæta hlutleysis, sérlega þegar þátttaka er ekki undir nafnleynd.

Hvað eru t.d. Gunnar Þórðarson að hugsa með að taka þátt í þessu? Hvað þá Magnús Þór eða Jóhann G? Allir frábærir listamenn en mega aðrir ekki bara fá að komast að?

Mér finnst framtakið frábært og ljóst að í svona keppni verður til fullt af frábærri tónlist sem kannski hefði ekki orðið til annars. Þetta er það sama og mér finnst reyndar um undankeppni EuroVision keppninnar. Við ættum kannski bara að láta undankeppnina nægja. Flott tónlist sem fæðist. Annað þurfum við ekki.


Hvar er fólkið núna

Hávaði, múgæsingur, læti, og ákaft ákall um endurnýjun skilaði nánast engu.

Hvar er núna fólkið sem baðaði út öllum öngum og rændi völdum í landinu í vetur? Þetta fólk skilaði sér ekki í prófkjör. Nánast engin endurnýjum hefur orðið á framboðslistum. Frábærlega efnilegt nýtt fólk reyndi að komast að til að taka á hlutunum en kjósendur mæta ekki einu sinni á kjörstað í forval og prófkjör. Þeir sem mætti merktu við reitinn status quo.

Geysi öflugt, nýtt og efnilegt fólk reyndi að komast að á öllum listum. Þeim var bara ekki hleypt að. Sá áhugi á breytingum sem haft var hæst um virðist ekki vera til staðar. Kannski að ástæðan sé önnur. Kannski ástæðan sé það ægivald sem flokksmaskínur hafa á fólki. Þegar fólki rennur æðið tekur við andvaraleysi.

Hvað er til ráða? Ef einhver von á að vera á endurnýjun þarf að innleiða persónukosningar og það strax! Lausn til lengri tíma felst í gagngerum hugarfars og kerfisbreytingum. Rödd fólksins (nei og aftur nei, ekki Hörður Torfason!) þarf að fá að komast að á milli kosninga. Þessa stundina er fólk hvert í sínu horni að ræða útfærslur á öflugri samskiptum og boðmiðlun meðal manna. Frosti Sigurjónsson viðraði fyrir mér ansi athyglisverðar hugmyndir núna nýverið. Ég leyfi honum að tala fyrir þeim á sinn máta.

Þó geysi öflug umræða sé í gangi held ég að bein aðkoma fólksins að ákvarðanatöku verði ekki gerleg nema með rafrænum kosningum. Athugið, rafrænar kosningar eru mikið ádýrari og einfaldari í framkvæmd en hefðbundnar kosningar.

Þegar búið er að koma á rafrænum kosningum er hægt að beita þeim í smáum og stórum stíl á afar ódýran og fljótlegan máta hvenær sem er. Rafrænar kosningar má nota til Alþingis-, Forseta- og sveitarstjórnarkosningar. Það er hægt að nota þær til að kjósa á stjórnlagaþing og til að kjósa um niðurstöðu þess þings. Það er hægt að beita þeim við þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og skoðanakannana í litlum og smáum stíl með skömmum fyrirvara.

Beint lýðræði er vel gerlegt á tryggan og einfaldan máta án þess að nokkur möguleiki sé á því að fylgjast með hvernig einstaklingar nota atkvæði sitt. Þetta get ég fullyrt af því að ég hef útfærslu á slíku í höndunum.


Þá er vilji þjóðarinnar ljós

Þetta verður ekki mikið skýrara. Þjóðin hefur talað. Þeir sem vilja að Jóhanna "þver" Sigurðardóttir taki að sér starf formanns fylkingarinnar mættu í blysförina í gærkvöldi.

Það sem mér finnst athyglisverðast að sá sem hvað fastast hefur heimtað framboð Jóhönnu mætti ekki. Jón Baldvin sat bara heima. Kannski er hann orðinn of gamall til að rölta þetta eða kannski hann sé bara svona staður.


mbl.is Enginn mætti í blysförina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Sagði einhver foringjadýrkun

Hjálpi mér heilög hamingjan. Ég er ekki viss um hvort nú er við hæfi að hlæja eða bara brosa að öllu saman. Þessi uppákoma er í öllu falli broslega hallærisleg.

Fylkingarfólk hefur verið óþreytandi í krítík sinni á því sem það hefur kallað foringjadýrkun Sjálfstæðismanna og svo gerist þetta. Nú er bara að bíða og sjá. Vilji þjóðarinnar mun eðlilega koma skýrt í ljós í kvöld.

Já, er Heilög Jóhanna dálítið þver? Þarf að dextra hana svolítið?


mbl.is Blysför til Jóhönnu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Prófkjör í Reykjavík

Konunni minni fannst erfitt að fá yfirsýn yfir hver biður um hvernig stuðning í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík næstu helgi. Þess vegna setti hún saman þennan lista sem ég læt fylgja með þessari færslu. Með þessa samantekt við hendina eru hlutirnir mun skýrari.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Nú fjölgar vinstri flokkunum á ný

Fréttir af slæmri heilsu Ingibjargar eru vissulega slæmar fréttir á margan hátt og fyrir marga. Ég óska henni alls góðs og vona að það verði henni uppbyggilegt að fá næði og frí frá því oki sem núna hvílir á stjórnmálamönnum þjóðarinnar.

Ein afleiðing af þessu brotthvarfi Ingibjargar er náttúrulega það að fylkingin mun liðast í sundur. Sá ósamstæði hópur vinstri kverúlanta og hugsjóna komma sem ekki hafa fundið í sér samsömun með VG og hafa með ólund fylkt sér saman í þessi stjórnmálasamtök undir stjórn Ingibjargar mun ekki finna flöt á áframhaldandi samstarfi til lengdar. Sú staðreynd að enn sé til Alþýðuflokksfélag sýnir svo ekki er nokkur vafi að enn er til hópur fólks sem í dæmigerðu vinstri harki vill eiga sér tilbúinn björgunarbát til að róa á þegar Fylkingarævintýrinu lýkur. Það er reyndar verst að þetta skyldi ekki gerast fyrr svo þjóðin fengi að upplifa þann farsa sem nú fer af stað áður en til kosninga kemur. Fylkingin mun hökta fram yfir næstu kosningar eingöngu vegna þessa að fólk mun sitja á sér og efna ekki til óvinafagnaðar að litlu tilefni. Vandinn mun birtast hressilega eftir kosningar, engum til góðs.Það eina sem ég sé neikvætt við þessi örlög fylkingarinnar er sú óreiða í stjórnmálum sem af þessu hlýst.

Sú sorglega vinstri slagsíða sem nú er á þjóðinni mun heldur aukast við þetta og er það miður.


mbl.is Ingibjörg Sólrún hættir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hver má hvað?

Nú bíð ég spenntur og kvíðinn eftir reiðiöldunni sem mun fara um þjóðfélagið ef fólk er samkvæmt sjálfu sér. Davíð sagði "við borgum ekki" og þjóðin trylltist. Nú segir Ólafur "við borgum ekki" og þá hlýtur reiðialdan að endurtaka sig.

Ráðamenn þjóðarinnar mega ekki tjá sig með þessum hætti út á við, eða hvað?


mbl.is Orðum forsetans slegið upp
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er ekki sama hvaðan vitleysan kemur

Ég hef lesið fáein blogg varðandi þessa frétt og undrast stórlega viðbrögð fólks. Er nóg að vera snoppufríður og vefja sig demöntum og gulli til að geta komist upp með þvaður? 

Ef einhver, hver sem er, bara EINHVER annar hefði leyft sér að segja í blaðaviðtali að enginn myndi missa húsið sitt þá hefði hringlaði í eldhúsáhöldum og krafist afsagnar. Fólki finnst þetta krúttlegt og bara sniðugt af konunni að bulla svona.

Ég skammast mín. Eina ferðina en er þetta svona "let them eat cake" sem kemur úr þessari áttinni. 


mbl.is Dorrit segist lengi hafa varað við fjármálahruni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitleysisgangur

Jóhönnu hefði verið nær að hinkra eftir sjálfri sér. Aðeins að anda rólega, klára þessa lagasetningu varðandi endurskipulagningu Seðlabanka sem hún segist vera að vinna að og fara rétt að málum. Núna stendur uppúr þessari vitleysu allri persónuleg rætni og úlfúð Forsætisráðherra i garð Seðlabankastjóra.

Það sem eftir stendur eru persónulegar ofsóknir Jóhönnu Sigurðardóttur á Davíð Oddson byggðar á pólitískri hentistefnu. Hvort sem það er rétt eða rangt að víkja Davíð úr Seðlabankanum er það ljóst að það er ekki hægt að standa verr að því en gert var.

Við skulum ekki gleyma því að þegar verið er að vísa í að einhverjir sérfræðingar eða fjölmiðlar úti í heimi lýsi undrun á því að Davíð skuli sitja enn í starfi að á bak við þau skrif öll eru persónulegar skoðanir þess einstaklings sem svo tjáir sig en ekki endilega einhver almenn skoðun einhvers massa. Sérfræðingur að sunnan er, þegar upp er staðið, bara einstaklingur með sína skoðun.


mbl.is Lýsir miklum vonbrigðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband