Klækjapólitík, allir spila

Klækjapólitík er það kallað þegar fólk í stjórnmálum reynir að nota eitthvert ástand til að hafa áhrif á stöðu pólitískra andstæðinga og stjórna atburðarás með beytingu þrýstings sem oft er ekki augljós. Þessa dagana fáum við ofgnótt af þessu.

Öllum er kunnugt um umfjöllun um aflandsreikninga forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og frammámanna í þjóðfélaginu. Stjórnarandstaðan á Alþingi undirbýr að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra eða tillögu um þingrof. Fljótt á litið virðist sem báðar þessar tillögur myndu verða undir í þinginu og falla vegna hlutfalla þingmanna. Því er það spurning hvers vegna stjórnarandstaðan lætur sér þetta til hugar koma. Svarið er ekki augljóst nema ef vera kynni að það sé bara verið að safna liði á Austurvöll til mótmæla og sækja styrk í það.

En nú koma klækir, eða bara klækur.

Framsóknarþingmaður tilkynnir að hann, og flokkur hans, hyggist flytja frumvarp á Alþingi um afléttingu 110 ára leyndar á skjölum sem varða kröfuhafa föllnu bankanna og mál tengd samningum við þá. Þá spyr maður sig, hvers vegna kemur þetta upp núna? Mín kenning er sú að í þessum gögnum sé eitthvað það sem kemur sér afar illa fyrir forsvarsmenn síðustu ríkisstjórnar. Núna fylgjumst við vandlega með. Ef mín kenning er rétt má gera ráð fyrir að þessar  hugmyndir um vantraust fá takmarkaðan hljómgrunn hjá Samfylkingunni eða Vinstri-Grænum. Ef þetta gerist munu forystusauðir þessara flokka og fulltrúar ríkisstjórnarinnar rotta sig saman og PÚFF, allar hugmyndir um vantraust og afléttingu leyndar rjúka burt eins og rykskýin í Reykjavík meðan Dagur neitar að þrífa göturnar, og við verður fóðruð á einhverjum skýringum sem varða þjóðaröryggi, viðskiptasambönd og alþjóðasamninga. Loftið fer að miklu leyti úr mótmælum og fljótlega finnum við okkur eitthvað nýtt að hneykslast á. Aflandsfélög gleymast í bili á sama hátt og Borgunarmálið er horfið í djúpið.

En hvers vegna ætti þetta að ganga eftir? Mér finnst það blasa við og býð þetta sem skýringu.

Vinstri-grænir og Samfylking hafa misst allt sitt fylgi og hjá fylkingunni logar allt í illdeilum vegna forystukreppu. Hvorugur flokkurinn treystir sér í kosningar án kjósenda þó formennirnir tali digurbarkalega í fréttatímum.

Besti flokkurinn er horfinn og ef þing verður rofið núna eiga þau ekki afturkvæmt enda enginn Gnarr til að hanga í frakkalöfunum á.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn myndu gjalda afhroð vegna þessara atburða og sífelldra vandræða undanfarin misseri og þeirra fylgi myndi líkast til hrapa enn frekar.

En hvað með Pírata? Hví ættu þau að samþykkja þetta? Mér finnst það blasa við. Þó fylgi þeirra sé í hæstu hæðum eru samt blikur á lofti þar. Sífeldur krytur um forystumál er þeim erfiður en hitt þó sýnu erfiðara að þar á bæ er afar langt í land með að flokkurinn sé tilbúinn í kosningar. Þau hafa prósentur en vantar fólk. Öngþveitið sem myndi skapast við það að þurfa skyndilega að rjúka til kosninga, löngu áður en innviðirnir eru orðinr nægilega sterkir, gæti auðveldlega kostað þau stóran hluta af fylgi sínu.

Allir tapa en vandinn er að spá fyrir hver tapar mestu. Í því liggur fælingarmáttur þess að samþykkja vantraust á Alþingi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband