Færsluflokkur: Bloggar

Orðheldni er aðalatriði en ekki valkvætt þeim sem njóta vill trausts.

Núna ríður á að við getum trúað orðum forsetans.

Hann vissi ekkert um tenginguna við Miss Mussayeff (ungfrú Mussayeff) eða önnur aflandsfélög.

Til að manni sé trúað þarf maður að hafa sýnt það að maður standi við orð sín.

Nú spyr ég þjóðina, eða þann hluta hennar sem þetta les, hefur forsetinn alltaf staðið við það sem hann hefur sagt?


Skálka- eða skattaskjól

Öll umræðan undanfarið hefur snúist um skattaskjól og undanskot auðmanna til aflandseyja. Gjarnan er þetta sagt vera til þess að fela eitthvað eða til að sleppa við skattagreiðslur á Íslandi.

Í 7. grein laga 21/1990 segir "Hjón eiga sama lögheimili. Hafi þau sína bækistöðina hvort skv. 1. gr. skal lögheimili þeirra vera hjá því hjónanna sem hefur börn þeirra hjá sér. Ef börn hjóna eru hjá þeim báðum eða hjón eru barnlaus skulu þau ákveða á hvorum staðnum lögheimili þeirra skuli vera, ella ákveður [Þjóðskrá Íslands]1) það. …2)"

Frá þessu er undantekning til að moka undir íslenska pólitíkusa sem vilja fá sínar þingfararsposlur þó þeir búi í Reykjavík. Nokkur dæmi eru um að þingmenn skrái sitt lögheimili úti á landi, á öðrum stað en maki þeirra, þó bæði hafi heimilisfesti í Reykjavík. Þetta er leyft. Í 4. mgr. 4. gr. sömu laga stendur "Alþingismanni er heimilt að eiga áfram lögheimili í því sveitarfélagi þar sem hann hafði fasta búsetu áður en hann varð þingmaður. Sama gildir um ráðherra."

Í lögunum eru upptaldar aðrar undanþágur sem varða t.d. lögheimili farmanna og fleiri. 

Ekki orð um að forsetafrúin megi flytja lögheimili sitt úr landi til að sleppa við skattgreiðslur á Íslandi.

Ég man að Ólafur Ragnar Grímsson brást ókvæði við þegar hann var spurður út í þennan ráðahag eiginkonu sinnar, demantasalans snjalla, vegna þess að það væri svo flókið fyrir hana að eiga peningafjöll í Bretlandi en lögheimili hér.

Þetta er í himnalagi.


Klækjapólitík, allir spila

Klækjapólitík er það kallað þegar fólk í stjórnmálum reynir að nota eitthvert ástand til að hafa áhrif á stöðu pólitískra andstæðinga og stjórna atburðarás með beytingu þrýstings sem oft er ekki augljós. Þessa dagana fáum við ofgnótt af þessu.

Öllum er kunnugt um umfjöllun um aflandsreikninga forsvarsmanna ríkisstjórnarinnar og frammámanna í þjóðfélaginu. Stjórnarandstaðan á Alþingi undirbýr að leggja fram vantrauststillögu á forsætisráðherra eða tillögu um þingrof. Fljótt á litið virðist sem báðar þessar tillögur myndu verða undir í þinginu og falla vegna hlutfalla þingmanna. Því er það spurning hvers vegna stjórnarandstaðan lætur sér þetta til hugar koma. Svarið er ekki augljóst nema ef vera kynni að það sé bara verið að safna liði á Austurvöll til mótmæla og sækja styrk í það.

En nú koma klækir, eða bara klækur.

Framsóknarþingmaður tilkynnir að hann, og flokkur hans, hyggist flytja frumvarp á Alþingi um afléttingu 110 ára leyndar á skjölum sem varða kröfuhafa föllnu bankanna og mál tengd samningum við þá. Þá spyr maður sig, hvers vegna kemur þetta upp núna? Mín kenning er sú að í þessum gögnum sé eitthvað það sem kemur sér afar illa fyrir forsvarsmenn síðustu ríkisstjórnar. Núna fylgjumst við vandlega með. Ef mín kenning er rétt má gera ráð fyrir að þessar  hugmyndir um vantraust fá takmarkaðan hljómgrunn hjá Samfylkingunni eða Vinstri-Grænum. Ef þetta gerist munu forystusauðir þessara flokka og fulltrúar ríkisstjórnarinnar rotta sig saman og PÚFF, allar hugmyndir um vantraust og afléttingu leyndar rjúka burt eins og rykskýin í Reykjavík meðan Dagur neitar að þrífa göturnar, og við verður fóðruð á einhverjum skýringum sem varða þjóðaröryggi, viðskiptasambönd og alþjóðasamninga. Loftið fer að miklu leyti úr mótmælum og fljótlega finnum við okkur eitthvað nýtt að hneykslast á. Aflandsfélög gleymast í bili á sama hátt og Borgunarmálið er horfið í djúpið.

En hvers vegna ætti þetta að ganga eftir? Mér finnst það blasa við og býð þetta sem skýringu.

Vinstri-grænir og Samfylking hafa misst allt sitt fylgi og hjá fylkingunni logar allt í illdeilum vegna forystukreppu. Hvorugur flokkurinn treystir sér í kosningar án kjósenda þó formennirnir tali digurbarkalega í fréttatímum.

Besti flokkurinn er horfinn og ef þing verður rofið núna eiga þau ekki afturkvæmt enda enginn Gnarr til að hanga í frakkalöfunum á.

Sjálfstæðisflokkur og Framsókn myndu gjalda afhroð vegna þessara atburða og sífelldra vandræða undanfarin misseri og þeirra fylgi myndi líkast til hrapa enn frekar.

En hvað með Pírata? Hví ættu þau að samþykkja þetta? Mér finnst það blasa við. Þó fylgi þeirra sé í hæstu hæðum eru samt blikur á lofti þar. Sífeldur krytur um forystumál er þeim erfiður en hitt þó sýnu erfiðara að þar á bæ er afar langt í land með að flokkurinn sé tilbúinn í kosningar. Þau hafa prósentur en vantar fólk. Öngþveitið sem myndi skapast við það að þurfa skyndilega að rjúka til kosninga, löngu áður en innviðirnir eru orðinr nægilega sterkir, gæti auðveldlega kostað þau stóran hluta af fylgi sínu.

Allir tapa en vandinn er að spá fyrir hver tapar mestu. Í því liggur fælingarmáttur þess að samþykkja vantraust á Alþingi.


Samviskufrelsi

Þessa dagana liggur þungt á þjóðinni það sem kallast samviskufrelsi. Hér sér fólk einhvers konar árekstur milli réttinda samkynhneigðra til að ganga í hjónaband og réttinda presta til að fremja ekki þá athöfn sem í slíkri hjónavígslu felst.

Hér virðast afar margir ruglast á hlutum, nema ruglingurinn liggi hjá mér. Annað eins hefur gerst og þá þarf bara að rétta hjá mér kúrsinn með umræðu og útskýringum.

Samkynhneigðir hafa löglegan rétt til að ganga í hjónaband. Þetta er hægt að fá á löglegan hátt hjá nærliggjandi sýslumanni og fleirum. Samkvæmt 16. - 20 grein hjúskaparlaga má sjá að prestar, forstöðumenn og löggiltir umboðsmenn trú- og lífsskoðunarfélaga og sýslumenn eru það fólk sem hefur lagalegan rétt til að pússa fólk saman í hjónaband burtséð frá kynhneigð.

Hvað er það sem umræðan snýst um? Starfandi biskup fullyrðir að prestar megi neita fólki um þessa vígslu ef slíkt brýtur gegn samvisku þeirra. Þessu er innanríkisráðherra núna ekki lengur sammála þó að hún hafi 2009 flutt frumvarp þess efnis að prestum og vígsluumönnum trúfélaga væri ekki skylt að veita þessa þjónustu. Ráðherrann lætur hafa eftir sér „En ef prestur er, eins og núna, opinber embættismaður og athöfn hans hefur áhrif samkvæmt lögum þá er mjög hæpið fyrir hann að fara að mismuna mönnum á grundvelli kynhneigðar. Prestar eru opinberir embættismenn og halda á veraldlegu valdi líka,“

Lestu þetta aftur "Ef prestur er, eins og núna, opinber embættismaður..." Vill ráðherrann meina að prestar hafi ekki verið opinberir embættismenn 2009 en hafi breyst í slíka núna?

Hjónavígsla, framkvæmd af þar til löglegum einstaklingi, hefur mjög mikið lagalegt gildi. Í vígslunni felast alls kyns veigamikil réttindi fyrir hjónin og þeirra afkomendur, og má þá einu gilda hvers konar löglegur einstaklingur framkvæmir vígsluna. Athöfn sem fer fram í kirkju er algerlega á pari við slíka athöfn í hofi eða mosku frá lagalegum sjónarhóli. Algerlega sami löggerningurinn. Eini munurinn er að einstaklingurinn sem framkvæma þessar athafnir í trúarlegum kringumstæðum kryddar þær með alls kyns kennisetningum, prjáli og andlegri innrætingu sem litast af því í hvaða tegund af heimsbjargarhöll athöfnin fer fram, en hinn heldur sig við lagabókstafinn. Athöfnin litast af því hvort um er að ræða kirkju, hof, mosku eða skrifstofu. Lagalega gildið er það sama, innrætingin, skrautið, og athöfnin misjafnt.

Ráðherrann getur bara alls ekki neytt prest, frekar en goða eða imam, til að brjóta gegn sinni samvisku sem búið að að gegnsýra með hindurvitnum og þvaðri frá æsku. Ef trúarforkólfur neitar að framkvæma hjónavígslu á það engu máli að skipta hvaðan launaseðillinn kemur. Vandamálið liggur í því að þetta fólk telur að vofa almættisins geti reiðst ef fólki sem laðast að fólki af sama kyni er miðlað af guðlegri miskunn og blessun. Ég ætla ekki að eyða plássi í umfjöllun um tvískinnung, hroka og mannfyrirlitningu hér en hugsa bara mitt og læt þig um þína skoðun á því.

Hvað gengur fólki annars til. Ef einhver preláti í hempu eða kjól vill ekki annast vígsluna, vill fólk þá virkilega láta viðkomandi sjá um hana þvert gegn þeirra vilja? Hinu megin á sama peningi, getur ríkislaunaða kirkjan ekki uppdiktað einhverja athöfn með svipuðu sniði og núverandi hjónavígsla sem sneiðir hjá því að neyða þannig þenkjandi presta til að minnast á hjónaband upphátt?

Sjálfur ber ég ekki snefil af virðingu fyrir trúarbrögðum af neinni tegund, en meðan þessi firra viðgengst er mikið einfaldara að finna einhvern meðalveg sem veitir einum það sem hann vill án þess að særa hinn. Hér hlýtur að finnast einhver meðalvegur sem báðir geta sætt sig við án þess að réttindi eða réttlætiskennd þurfi að vera fótum troðin.


How to lie with statistics

Fyrirsögnin vísar í heiti afar gagnlegrar bókar eftir Daniel Huff sem gefin var út 1954. Síðan hefir mikið vatn runnið til sjávar en efni bókarinnar á mjög vel við enn í dag.

Í þessari viku hefur ný könnunin á lifshamingju, hag og fjárhagsstöðu verið birt á vef maskina.is Þessi könnun hefur verið til umfjöllunar undanfarna daga. Mest hef ég heyrt um þetta rætt á RÚV, hvernig sem á því stendur.

Þessi umfjöllun minnir mig mjög á pissukeppni flokkspólitísku málgagnanna hér áður. Þið munið hvernig þetta var. Ef vinstri menn héldu mótælafund einhvers staðar var birt mynd í Þjóðviljanum sem tekin var beint framan við hópinn þannig að mannfjöldinn fyllti rammann og myndatexti gaf til kynna að ógrynni manns hafi verið á staðnum. Á sama tíma birti Mogginn loftmynd tekna með gleiðlinsu sem sýndi handfylli manns í hnapp og textinn útskýrði fyrir okkur að enginn áhugi hefði verið á málefninu eins og dræm mæting sýndi svo vel. Þetta virkaði nákvæmlega eins á báða bóga. Fréttaflutningur miðaði að því að lita niðurstöður þóknanlegum litum þess sem flutti.

Það sem sló mig í þessari nýjustu umfjöllun var setning úr niðurstöðum könnunarinnar sem sífellt var endurtekin og hljóðar svona: "Kjósendur Pírata eru ólíklegastir til að ná endum saman, eða næstum 40% þeirra (14,3% + 24,5%) en meira en 55% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eiga afgang um hver mánaðarmót"

Þetta vakti enga athygli í umfjölluninni á RÚV.

Hvað þýðir þetta? Í hnotskurn er niðurstaðan þessi. 38,8% kjósenda Pírata ná illa, eða ekki, endum saman en 61,2% þeirra ná endum saman eða eiga afgang.
Hinn hluti þessarar setningar merkir að uþb. 45% kjósenda Sjálfstæðsflokks eiga ekki afgang í lok mánaðar en 55% þeirra eiga afgang.

Af hverju eru þessar tölur ekki birtar þannig að þær séu samanburðarhæfar? Hvert er hlutfall Pírata sem ná ekki endum saman að viðbættum þeim sem ná endum saman án þess að eiga afgang?

Núna ætla ég ekkert sérstaklega að gera neinum upp neitt sérstakt viðhorf eða afstöðu og læt öðrum bara eftir að túlka þessa framsetningu hver fyrir sig en finnst sjálfum að eitthvað skorti á gagnrýna hugsun í þessari umfjöllun.


Núna vill Dagur fara að vanda sig

Í þessari könnun http://www.ruv.is/frett/islenskir-unglingar-vilja-flytja-ur-landi kemur fram að ungt fólk vill frekar flytja til útlanda en Reykjavíkur.

Þetta eru ekki góð tóðindi og ég held að núna ættu Borgaryfirvöld að hugsa sinn gang.

Borgarstjóri bregst við, kallar þetta byggðavanda og aðspurður segir hann að Borgin þurfi að vanda síg í framhaldinu við uppbygginguna og eitthvað fleira í þeim dúr. Honum dettur ekki í hug að það hvernig staðið hefur verið að málum undanfarin ár með þróun Reykjavíkur hafi nein áhrif á þessa afstöðu unga fólksins. Hann virðist halda að unga fólkið gruni eitthvað um þróun Borgarinnar í framtíðinni sem veldur þessari afstöðu, frekar en að núverandi ástandi sé um að kenna.

Hvaðan í ósköpunum kemur þessi þrá og árátta að gera allt sem í mannlegu valdi stendur til að gera Borgina þrönga og dimma svo hún líkist sem mest borgum á borð við París? Hvers vegna eigum við að storma í átt til þéttingar byggðar og þrengsla? Er það virkilega til að við getum rekið hagkvæmt Strætókerfi eða sporvagna? Er það aðal baráttmál Borgaryfirvalda að skapa svo mikil þrengsli um borgarana að það sé hægt að segja seinna að núna loksons geti Strætó, eða Sporó, staðið undir sér og það sé því miður bara ekki hægt að leyfa öllum borgurunum að eiga sinn bíl. Við eigum ógrynni af innlendri, hreinni orku til að gera það þannig að mengun á ekki að vera vandamálið. Í dag er verið að byggja nýtt húsnæði sem er þannig útfært að það er innan við 1 bílastæði per íbúð. Á Lýsisreitnum eru 0,8 stæði á íbúð. Einn af hverjum fimm íbúðum getur ekki fylgt bíll og heimsóknir akandi eru ekki gerlegar. Þetta er að gerast víðar.

Ef nógu mikið er þjarmað að samgöngum, og núverandi kostir gerðir nægilega erfiðir, er vitanlega hægt að neyða fleiri á reiðhjól en þeir eru í dag þvert ofan í þeirra yfirlýstan vilja sem hefur mælst ítrkað. 4% borgarbúa hafa hug á að fara ferða sinna á reiðhjóli en Hjálmar Sveinsson, Gísli Marteinn og Dagur vita betur hvað er okkur fyrir betsu og eru algerlega staðráðnir í að hunsa vilja fólksins. Í föðurlegri umhyggju og fyrirhyggju hefur þetta fólk lýst því yfir að þetta hlutfall skuli verða 8% sama hvort við viljum það eða ekki. Núna vona ég að þessar nýjustu spár um ísöld eftir 15 ár séu rangar.

Svei þeim alla daga. Ég held þeim væri réttast að hugsa þetta aðeins betur og átta sig á að vel má vera að þeirra núverandi verk séu það sem fælir unga fólkið úr landi og að skaðinn sé þegar skeður. Við getum ekki gefið þeim vinnufrið til að valda meiri skaða.


Útvarps og sjónvarpsstöðvar í áttunarvanda

Þessa dagana verður æ betur ljóst að eðli sjónvarps- og útvarpsrekstrar hefur núna breyst varanlega.
Staðan er núna þannig að enginn (nánast og almennt) undir þrítugu lætur rekstraraðila útvarps- og sjónvarpsstöðva (ÚogS) segja sér lengur hvenær á að horfa eða hlusta. Í alllangan tíma hafa þjónustur á borð við Netflix og þess háttar hlaupið í skarðið og veitt fjölbreytni og sveigjanleika þar sem ÚogS hafa staðnað. Yngra fólk nær sér í það efni sem það óskar þegar því hentar. Ef þau vilja horfa á eitthvert efni fara þau á netið og ná í heilu seríurnar og horfa þegar þeim hentar. Ekki klukkan 20:00 næsta þriðjudag og aftur viku seinna.
Þau láta ekki bjóða sér að rekstraraðilar stjórni tíma þeirra á meðan að þeir, á sama tíma,  driti inn sífelldum truflunum í formi auglýsinga og neyslustýringar. Það er pirrandi og úrelt.
Ég heyrði nýverið í útvarpinu viðtal við mann sem benti á að ástandið á ÚogS væri orðið alveg prýðilegt. Núna væri hægt að horfa á efni síðasta sólarhrings í tímaflakki og tvær vikur aftur í tíman af uppteknu efni úr útsendingu. Ofan í kaupið eru núna komnar þokkalegar myndaleigur (VOD) sem bjóða uppá efni á hóflegu verði, allt væru þetta stór skref í rétta átt.
Ég er sammála honum og átta mig æ betur á því að þetta eru skref í rétta átt. Ég er sjálfur orðinn leiður á að láta skammta mér einn lítinn bita af efni á viku og láta mig svo bíða í viku eftir næsta mola. Þetta kæri ég mig ekki um lengur.
Það er er orðið tímabært að ÚogS átti sig á þessu og viðurkenni að slagurinn við efnisneyslu af netinu er tapaður.

Það er vissulega stórt skref í rétta átt, eins og gerist núna í auknum mæli, að bjóða uppá heilar seríur af einstökum þáttum í einu en það er samt ekki alveg nóg. Valið á efni á að vera mitt og ég vil losna undan stýringu stöðvanna og hvað er í boði hvenær.
Núna, þegar sífellt verður erfiðara að halda athygli viðskiptavinanna, hlýtur áhersla ÚogS að beinast að því hvernig hægt er að ná til fólks til að tryggja að rekstrargrundvöllur sé til staðar. Stöðvarnar hljóta að auka framboð af efni sem neytandinn getur valið þegar neytandanum hentar. Áherslan hlýtur núna að vera á að uppfylla óskirnar með þjónustu sem tekur tímabindingu út fyrir sviga og leyfir neytendum að stjórna sínum eigin tíma.
Það má vel vera að suma hluti sé gott að fá í smá skömmtum og láta einhvern tíma líða á milli. Með því móti verður upplifunin sterkari og eftirvæntingin verður hluti af af upplifuninni. Þetta á við viðburði á borð við Jól, áramót, og afmæli en ekki Survivor, Downton Abbey eða NCIS, ekki einu sinni fréttir. Því fyrr sem stöðvarnar átta sig á því, þeim mun líklegra er að þær lifi í sífellt harðnandi samkeppni um athygli viðskiptavinanna.
Þegar þessar augljósu staðreyndir blasa við er undarlegt að RÚV tryggi reksturinn með því að draga úr því sem fólk vill helst, tímafrelsi.
Innantóma frauðið sem boðið er uppá í formi afþreyingar frá USA eða Bretlandi þjónar þeim tilgangi að gefa okkur hlé frá Kilju Egils Helgasonar og Landanum.
Þeir þættir eru vissulega ágætir í flokki slíkra þátta og fólkið sem að baki þeim stendur er alveg ljómandi, en þetta er bara efni sem höfðar til ákveðins takmarkaðs hóps áhorfenda.
Þegar búið er að belgja mann út af innblásnum umfjöllunum um nýlist og vandaðri fræðslu um vaxtarskilyrði fjallagrasa og jaðrakana er ágætt að fá sér heilakaramellu í formi CSI eða Mrs. Brown's Boys, og ég vil fá að horfa á það þegar mér hentar.
Ef ÚogS vilja halda lífi er ráðið að sækja fram en ekki pakka í vörn. Ekki draga úr gæðunum og áhuga mínum á að neyta og greiða fyrir. Sem stendur er ég tilbúinn að greiða en sá tími er á enda þegar það sem ég greiði fyrir verður sífellt lélegra.
Fólki verður tíðrætt um menningarlegt hlutverk RÚV, plötusafnið, hljómleikahald og fleira í þá veru. Líkast til er þetta allt satt og rétt. Það sem vefst fyrir mér varðandi þetta er að fólk lætur almennt eins og eingöngu RÚV geti gert þetta, það sé einhver sérstakur hæfileiki sem í þeirri stofnun býr sem sé svo einstakur að öðrum sé ekki kleyft að standa fyrir þessum uppákomum. Óli Palli, Guðni Már, og allt hitt starfsfólk RÚV er sómafólk sem sinnir starfi sínu af miklum metnaði og stendur sig vel. Það er gjarnan sagt að stöðvarnar séu ekkert annað en fólkið sem á þeim starfar og að þess vegna sé bara ekkert hægt að selja RÚV. Ég held að þetta fólk myndi starfa við sitt fag með engu minni sóma þó mitt skattfé væri ekki nýtt í að greiða fyrir það.
Plötusafnið og upptökurnar eru vissulaga mikil gersemi og þeir hlutir hætta ekkert að vera til þó hlutverk RÚV sé endurskilgreint á þann hátt að dægurflugur og stundarþras sé sett í hendur annara.


Vissulega hefur RÚV gegnt stóru hlutverki í gegnum tíðina, og gegnir enn. Það er samt tímabært að ráðendur á þeim bæ átti sig á hversu mikið nátttröll sú stofnun er orðin. Þau eru búin að missa af lestinni og missa frá sér æ stærri hluta landsmanna með hverjum degi sem líður. Það er ekki vegna þess að þetta er Ríkisstofnun eða af því að Síðdegisútvarpið er svona en ekki öðru vísi. Það er vegna þess að Netflix, Grooveshark, tonlist.is, iTunes, Spotify og sambærilegt geta boðið okkur það sem við óskum eftir. Við höfum ekki ríka þörf fyrir að upplífa RÚV í því formi sem ráðamönnum þar á bæ þóknast. Þau verða að gera sér grein fyrir þverrandi áhuga fólks á að bíða eftir að útvörpurum þóknast að veita þeim aðgang að því efni sem það vill.
RÚV á sér réttlætingu, hlutverk og syllur að híma á. Ég ólst upp við eitt Ríkisútvarp/sjónvarp sem ekki sendi út á sumrin og ekki fimmtudögum. Fyrir rest fyllti Kaninn í eyðurnar og það kom sér bara vel. Núna tala ég ensku vel af því að þá var ekkert talsett. Fram að Kananum var grautfúlt að geta ekki horft á sjónvarpið og þó einhverjir virðist minnast þess í rósrauðum bjarma fagurra æskuminninga og leikja úti á kvöldin var það engu síður svo að það var jafn svekkjandi þá og það er í dag að þurfa bíða í heila viku eftir að Sjónvarpinu þóknist að senda út næsta mola af dúsu.
Nú er svo komið að ég er hættur að nenna að hlusta á Rás 2 af ýmsum ástæðum sem varða minn persónulega smekk. Fyrir mig er Rás 1 langbesti kosturinn í tímamýldum smáskömmtum. Það annað sem ég hlusta á er efni sem ég sæki mér þegar mér hentar, ýmist gegna greiðslu eða frítt.
Á vef RÚV, og annarra, er vissulega hægt að nálgast efni sem búið er að senda út, með ákveðnum takmörkunum. Það er ekki það sem ég er að tala um. Ég er spenntari fyrir efninu sem ekki er farið í loftið, þó hitt sé ekki síður nauðsynlegt.
Mér er alveg ljóst að þegar nægilega margir missa áhugann á að greiða fyrir efnið verða ekki lengur til peningar til að búa til nýtt efni. Það er því þeim mun nauðsynlegra fyrir fólkið í þessum bransa að átta sig á að formið sem í boði er í dag trekkir ekki lengur og er ástæða þess að neytendurnir snúa sér annað í sífellt auknum mæli.
Hættum að berja hausnum við steininn. Tæknin til að veita efni til neytenda þegar okkur hentar er til staðar nú þegar og það verður ekki aftur snúið.
Bjóðið mér það sem ég vil þegar ég við það eða missið minn stuðning ella.


Allt í nafni trúarbragða

Þessa dagana verður fólki tíðrætt um umburðarlyndi, kosti þess og galla. Umræðan er á þá leið að núna eigi allir að hunsa bakgrunn og fortíð og líta fram á við með opinn huga og víðsýni. Deilur um útlendinga, innflytjendur, og trúarbrögð tröllríða fjölmiðlum, bloggum og samfélagsmiðlum. Eins og við er að búast sýnist þar sitt hverjum. En um hvað snýst málið og af hverju þurfum við að kalla eftir einhverju sérstöku átaki í manngæsku og umburðarlyndi? Það er út af Guði!
 
Langflest fólskuverka mannkyns í gegnum aldirnar hafa verið framkvæmd vegna þess að hópar fólks hafa myndað þrýstihópa áhugafólks um það sem ég kýs að kalla ímyndaða "Veru" sem hefur þá sérstöðu að vera eina "Veran" sem getur hafa búið heiminn til. [Mér hefur verið bent á að ég vísa hér í eingyðistrúarbrögð. Til einföldunar ætla ég að halda mig við eintölu en árétta að þessi Vera gæti allt eins verið samansafn af ýmsu tagi] Veran heyrir hvað allt mannkyn hugsar á hverri stundu, veit hvað hver og einn ætlar að gera, ákveður örlög okkar allra og hefur það sérstaka markmið að eyða heiminum þegar ákveðin skilyrði hafa verið uppfyllt. Þessi Vera bjó allt til en því er látið ósvarað hver bjó þessa Veru til og í því felst gapandi rökvilla. Þessir hópar eru, og hafa verið, geysimargir. Allir hóparnir eru samstíga á einna hátt, þeirra vera er eina Veran. Í það minnsta er þeirra Vera eina rétta Veran og allir hinir hóparnir hafa einfaldlega rangt fyrir sér varðandi sína Veru. Sumir hóparnir ganga svo langt að móðgast út af því að aðrir hópar eru ósammála þeim um Yfirveru, nægilega móðgaðir fyrir hönd Verunnar að þeir grípa til ráðstafana til að lagfæra skoðanir hinna.
 
Margir þessara hópa koma sér upp hlíf utan um þessar skoðanir sínar. Þeir búa til reglur um hvernig fólk á að hegða sér. Hóparnir búa til kennisetningar sem þeir síðan fullyrða að kenni mannkyninu muninn á réttu og röngu. Kennisetningarnar eru svo öflugar að fólk sem tileinkar sér þær verður ósjálfrátt góðir einstaklingar. Tilgangurinn helgar meðalið og meðalið er geysiöflugt. Meðalið svífst einskis, gefur engin grið. Allir skulu lesa og læra kennisetningarnar góðu og umbreytast í gott fólk við það. Veran fær í flestum tilvikum sérstakt samband við fáeina útvalda einstaklinga í hópunum sem segja hinum hvað Veran ætlast til af þeim. Óskir hennar breytast dálítið í takt við tíðarandann, en Veran er ekki alls kostar ánægð með ástandið og gerir sífelldar kröfur um að hafa meiri áhrif. Gegn auknum áhrifum er meðlimum hópanna lofað umbun. Það eina sem félagarnir þurfa að gera er að líta fram hjá skynsemi, láta rök fyrir róða, og hlýða í einu og öllu. Fyrir slíka hegðun hljótast ríkuleg laun, en ákúrur ella. Í sumum tilvikum, allflestum reyndar, verða félagarnir stikkfrí og þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því að deyja. Það vandamál er tekið út fyrir sviga ef menn bara gera eins og Veran vill. Shalom, ahkbar og amen koma mönnum á leiðarenda, en bara þeim útvöldu sem best gengur að láta skynsemina róa. Ef áhangendur eru ekki dúsir við reglurnar fara þeir beina leið í steininn og fá sko engar 200 krónur fari þeir yfir byrjunarreitinn. Í steininum verður vistin slæm og hún verður varanleg. Reyndar hafa sumir hóparnir komið sér upp skammtíma gæsluvarðhaldi sem félagsmenn geta stytt vistina í með fjárframlögum en þau verða að vera fyrirframgreidd.
 
Forvígismenn hópanna voru, og eru, slyngir. Þeir sem stofnsamþykktirnar skrifuðu settu inn sérstakar hliðarsporavarnir,  einskonar vegrið andans, sem heldur fólki á brautinni. Einn hópurinn, til dæmis, bannar félögunum að skipta um skoðun að viðlögðu lífláti, sem síðan fylgir ferðalag lóðbeint í steininn vonda og varanlega. Margir hópanna meina félögunum að deila lífinu með meðlimum annarra hópa að viðlögðum brottrekstri og útskúfun. Enn einn hópurinn hefur komið því í landslög að ekki megi krítisera skoðanir hópsins. Allir eiga þeir það sammerkt að snúast öndverðir við tilraunum annarra hópa að ná til sín nýjum félögum og allir gera hóparnir þetta af stakri manngæsku og með velferð fólksins síns að leiðarljósi. Margir hópanna segjast segjast bókstaflega ætla að umbera skoðanir annarra þó greyin sem eru villuráfandi lendi vitanlega í fangelsi eymdar til eilífðar fyrir afstöðu sína, í fyllingu tímans. Aðrir hópar eru svo góðir í eðli sínu að þeir setja sér það sem markmið að snúa öllum öðrum á sitt band eða drepa ella, af því að Veran góða elskar alla svo heitt. Einn er sá flötur sem allir hóparnir halda í heiðri, bann við samkynhneigð.
 
Það er fleira sem hugsa þarf útí. Þó að Veran sé alltsjáandi, alvitur, og sé hreint og beint alls staðar er ekki sama hvar og hvernig umboðsmenn hennar standa að því að hafa samband. Um það gilda strangar reglur. Það þarf að klæða sig uppá í sérstakar dulur sem félagsmenn hafa keypt á umbann. Það þarf að fylgja sérstökum siðareglum og ekki er nú ónýtt ef umbinn kanna að tala eitthvert leynimál sem restin af hjörðinni ekki skiljur, það er svo hátíðlegt og í því er soddan upphefð. Staður, tími og aðferð skipta líka öllu. Sumir hópanna þurfa að hafa samband allan sólarhringinn með reglulegu millibili, til að tryggja að engin fái fullan svefn. Við samskiptin þarf aukinheldur að snúa í rétta átt sem miðast við landfræðilega staðsetningu þrátt fyrir að Veran sé alls staðar og heyri allt. Sumir hóparnir þurfa að spjalla í reykjarkófi og enn aðrir í vímu. Allir hóparnir þurfa að eiga hús undir þessi spjöll. Húsin þurfa að vera stærri, íburðarmeiri og dýrari en hús hinna til að það sé lýðum ljóst að þeirra Vera skaffi betur. Þótt undarlegt megi virðast er Veran, þessu almáttuga, í sífelldum fjárkröggum og þarfnast stöðugs straums fjárframlaga félaganna. Þótt það hljómi undarlega eru þess dæmi að það sé bundið í lög landa að fjármagna starfsemi svona hópa, og þá hygla einum umfram aðra, með skattfé borgaranna.
 
Einhver hefði haldið að eftir því sem upplýsingin verður útbreiddari og mannkynið nær betri skilningi á eðli hlutanna myndi rofa til og dula bábilja og hindurvitna myndi falla. Í það minnsta mætti búast við að á hana kæmi ofurlítil rifa semskynsamt fólkið gæti séð í gegnum til að ná sönsum, en því er, vondu heilli, ekki að heilsa. Stífnin, belgingurinn og sjálfbirgingshátturinn tekur bara á sig nýjar myndir. Ef erfitt er að skilja einhvern hlut eða fyrirbæri er handhægast að skrifa það á reikning Verunnar og trúa því bara undanbragðalaust að Veran kunni skil á öllum hlutum og því sé óþarfi fyrir mannfólkið að gera það líka. Vísindi og skilningur, upplýsingar og útskýringar mega víkja fyrir blindri trú og viðvarnandi skorti á þörf fyrir vitneskju.
 
Við skulum ekki fyrir nokkurn mun halda það hérlendis að þó að Conquistadores, Rannsóknarrétturinn, og Krossferðirnar heyri fortíðinni til
sé núna allt í himnalagi hjá kristnum í seinni tíð. Ég minni á íslenska Biskupa af ýmsum bragðtegundum og þeirra barngæsku. Ég minni á framkomu einstakra presta innan og utan Þjóðkirkjunnar sem eru svo fullir af sanntrúnaði að einföld mannréttindi eru hunsuð. Það er ekki svo að allt hafi einfaldlega lagast yfir nótt á síðasta ári við það eitt að núna er kona biskup. 
Þó að ansi skrautleg ofbeldisfortíð Múslima sé nánast öll erlendis skulum við hafa hugfast að jafnvel hérlendis skiptist sá hópur í tvennt eftir mismunandi magni af ofstæki. 
Við skulum ekki halda að þó að Gyðingar hafi fengið sína landspildu fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna að þeirra ofbeldisverkum hafi linnt. Þau fara heldur í aukana og um alla jörðina standa þeir fastara á því en fótunum að þeir séu guðs útvalda þjóð.
 
Þetta á við um nánast öll trúarbrögð, sama hvaða nöfnum þau nefnast. Æ oftar koma mér í huga orð Voltaire: "Those who can make you believe absurdities, can make you commit atrocities." (Þeir sem fá þig til að trúa fáránleika, geta fengið þig til að framkvæma illvirki.)
 
Allt í nafni trúarbragða.

Þegar minna er meira.

Það er til fólk sem heldur því fram að Laffer kúrfan standist ekki, hún sé bull. Þetta fólk tínir til ýmis dæmi máli sínu til stuðning og alhæfir út frá þeim. Það er kannski tilviljun en það er algengt að þetta sé sama fólkið og þau sem réttlættu gengdarlausa skattpíningu fráfarandi Ríkisstjórnar. Ég þekki engan sem fullyrðir að kenningar Laffers standist sem einhver kosmískur heildarsannleikur án undantekninga. Þær eru í besta falli nothæfar sem vísbending og sem tól sem maður skildi hafa til hliðsjónar.

Kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins standa og falla með því að Lafferáhrif séu til staðar. Loforðin ganga út á að síðasta Ríkisstjórn hafi gengið of langt í skattlagningu. Hugsunin er að þeim punkti hafi verið náð að aukin skattpíning hafi lækkað skatttekjurnar og að þessu megi snúa við landinu til hagsbóta. Loforðin um lægri skattabyrði muni þannig gagnast bæði Ríkinu og skattgreiðendum í formi hærri skatttekna fyrir Ríkið. Ef dregið er úr skattáþján muni af því stafa hærri tekjur fyrir Ríkissjóð.

Frétt í mbl.is er skýrir frá dæmi um að þetta er einfaldlega hárrétt. Lafferáhrifin eru skýr í afkomu og tekjum ÁTVR. Áfengisgjald var hækkuð um 5.1% í ársbyrjun 2012 og upphæð svokallaðra "syndaskatta" (arðgreiðslur ÁTVR til Ríkisins) hækkaði um 4,5%. Hækkunin skattekna Ríkisins nær ekki að halda í við hækkun áfengisgjaldsins, hún nær ekki einu sinni að halda í við hækkun verðlags það árið.

Fráfarandi Ríkisstjórn bendir iðulega á að náðst hafi fínn árangur á ýmsum sviðum. Eitt af því sem þau minnast á er "Allir vinna" verkefnið sem hafi skilað miklum peningum og örvað atvinnulífið. Annað sem þau stæra sig af er skattaafsláttur á kvikmyndagerð sem hafi skilað hingað til lands talsverðum fjölda erlends kvikmyndagerðarfólks sem skildi eftir talsvert af gjaldeyri í landinu.

Afkoma ÁTVR og þessi tvö dæmi um hagstæð áhrif skattalækkana segja allt sem segja þarf um það að lækkun skatta getur skilað umtalsverðum árangri. Þetta einfaldlega sannar að þessi kosningaloforð Sjálfstæðisflokksins eru ekki innantóm og marklaus heldur þvert á móti að í þeim felist hugsanlega verulegur ágóði.

Núna er einungis spurning um hvernig þetta verður framkvæmt og mjög mikilvægt að vel takist til því mikið er í húfi fyrir heimilin í landinu sem sakna ennþá skjaldborgar Jóhönnu, sem til allrar lukku er að verða fyrrverandi pólitíkus.


Framsókn? Hrollur.

Í ljósi þess hvernig forustusveit Sjálfstæðisflokksins er skipuð, sem stendur, get ég ekki hugsað mér að kjósa þann flokk. Má vera að þetta lagist á landsfundinum núna um helgina og Hanna Birna taki formannssætið. Þá skal ég skoða málið uppá nýtt.

Hvað er þá til ráða?

Í ljósi þess að Framsóknarflokkurinn er með langbesta formanninn,  bestu tillögurnar, langbestu frammistöðuna og heilindin á síðasta kjörtímabili er það freistandi að kjósa þann lista í komandi kosningum, eða hvað.

Þegar litið er til þess að ég hef verið flokksbundinn Sjálfstæðismaður alla mína tíð, þó ég hafi ekki tekið virkan þátt í flokksstarfinu, væri þetta mikil beygja af leið. Þetta er samt sem áður næstum því freistandi þangað til við lítum yfir farinn veg.

Þegar ég hugsa um Framsókn er ýmislegt miður fallegt sem kemur upp í hugann. Þar er al-svartast og verst Finnur Ingólfsson. Ég sé ekki að Framsókn hafi svarið hann af sér og hann tórir efst á minningarsúlu framsóknar í mínum huga sem fyrirmynd alls sem er ómerkilegt og undirförult.

Hvað er næst í svokallaðri glæstri 100 ára sögu framsóknar? Halldór Ásgrímsson/Skinney-Þinganes og argreiðslur úr gjaldþrota fyrirtæki. Ég hef ekki séð nein merki þess að B hafi hrist þetta slen af sér.

Það er fleira. Guðni Ágústson sem er holdgerfingur þess sem rangt er í landbúnaðarmálum Íslands. Hann er naglfesta og kjölur yfirgangs og einokunar Mjólkursamsölunnar sem eyrir engu frekar en flóðaldan á Jólum 2004. Ekki sé ég nein merki þess að B hafi hreinsað sig af þeirri fortíð sem í raun er okkar raunveruleiki enn í dag.

Ef litið er um öxl eru svo margt óhreint í fortíð Framsóknarmanna sem enn hangir eins og skánin á kúnum í Álftafirðinum að það gerir manni erfitt fyrir að hugsa um það í alvöru að kjósa Framsóknarflokkinn.

Þar á bæ leggur fólk ofuráherslu á að þetta sé allt saman fortíðin og að við eigum ekki að vera föst í henni og líta frekar fram á veginn. Ef þetta væri alfarið fortíðin og að það væri skýrt að Framsókn ætlaði sér að skola skítinn af eigin belg, hreinsa af sér þessa klepra sem Finnur að líkir félagar eru, og til dæmis leggja af núverandi þvergirðingshátt í landbúnaðarmálum liti þetta óneytanlega betur út.

Sem stendur hef ég engin séð merki þess og skila Auðu.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband