Maðurinn á Álftanesi hefði betur skrifað undir fjölmiðlalögin

Mönnum ætti að vera það ljóst núna hvaða skaði hlaust af því að forsetinn gerði á sig hér um árið þegar hann synjaði fjölmiðlalögunum staðfestingar. Sá gjörningur var með ólíkindum. Þetta er sami forsetinn og hossaðist seinna um heiminn í einkaþotu Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fannst það bara heppilegt að það skildi falla ferð.

Fólk sá ekkert að því að fjölmiðlarnir sem átti að koma í eðlilegra horf mtt. eignarhalds risu upp og ólmuðust. Sú ótrúlega afbökun á fjölmiðlalögunum sem sumir fjölmiðlanna leyfðu sér að bera á borð fyrir sína hlustendur og lesendur var skammarleg. Það versta við framganginn var að fyrir honum stóð eini beini hagsmunaaðili málsins. Sá hluti almennings í landinu sem sá gildi þessarar lagasetningar fékk einfaldlega ekki að komast að í fjölmiðlunum sem lögin áttu að setja eignarhaldsskorður.

Sem dæmi um afleiðingar af furðulegu fyrirkomulagi eignarhalds fjölmiðlanna á Íslandi er stórskrítin uppákoma á Stöð 2.

Í gærkvöldi tók fréttastofa talsverðan tíma í að kynda undir það lýðskrum og þá múgsefjun sem er verið er að magna upp í þjóðfélaginu. Í stað þess að leggja sitt lóð á vogarskálarnar við að róa þjóðina og styrkja tók Stöð 2 til við að espa. Það sem ég á við er pistillinn sem fluttur var í fréttatímanum í gærkvöldi og hófst á því að rifjað var upp þegar fréttamaður Stöðvar 2 fullyrti að orðstír Íslands hefði "beðið ómælanlegan hnekki" á erlendum vettvangi. Í framhaldi af því var sýnt þegar forsætisráðherra spurði fréttamanninn hvort hann hefði einhverjar sannanir fyrir þessari fullyrðingu. Það sem á eftir fylgdi var með ólíkindum. Fréttastofan leifði sér að birta lista af ótrúlegum fullyrðingum og dylgjum sínu máli til stuðnings. Sá málflutningur sem þarna var settur fram er öllum fjölmiðlamönnum til skammar og á eingöngu heima í DV eða einhverju viðlíka sorpriti. Þetta átti ekkert skylt við fréttir.

Hér á eftir fylgir upptalning fréttastofunnar: (Mín svör í sviga)

Lánalínur til landsins stöðvaðar (Þetta hafði þegar gerst áður en Davíð tjáði sig í Kastljóst sökum lánsfjárþurrðar alls staðar)
Viðskiptabankarnir farnir í þrot (þetta gerðist fyrst og fremst sem afleiðing gerða Breta)
Krónan hrundi (Sama og nr. 2)
Erlend blöð kalla stjórnvöld aula (Hvaða blöð? Hvað er nýtt við upphrópanir í fjölmiðlum? Einhver skaði?)
Íslensk fyrirtæki fá ekki fyrirgreiðslur (Sama og nr. 2 Ekkert sagt um hvaða fyrirgreiðslu er átt við)
Erlendir bankar hættir að versla með krónuna (Sama og nr.2)
Námsmenn geta ekki tekið út námslánin sín (Sama og nr.2 en er bundið við þau lán sem fara á einhvern máta í gegnum breska banka)
Íslendingum hent út úr verslunum í Danmörku (Eitt tilvik, einn Íslendingur, og við vitum ekkert um af hverju það gerðist)
Íslenskir húseigendur á Spáni verða fyrir aðkasti Breta (Já, Breta! Takk fyrir Mr. Brown. Við því mátti búast. Sjá nr.2)
Íslendingum hent út úr leigubílum í Bretlandi (Sama og síðasti liður)

Í lok þessarar upptalningar endurtekur "fréttastofan" svo spurningu forsætisráðherra um hvort fréttamaðurinn hafi eitthvað fyrir sér í sínum fullyrðingum um "ómælanlegan hnekki".

Þetta er ekki fréttamennska. Hér er á ferðinni drepsár starfsmaður Baugs í beinni, ósmekklegri árás á forsætisráðherra sem stendur í ströngu þessa dagana við að reyna að gera við þær skemmdir sem orðnar eru. Þetta er ekki fréttamennska heldur múgæsing.

Hver segir að skaðinn sé eitthvað ómælanlegur (sem ég held að sé verið að nota í merkingunni varanlegur eða langtíma)? Ég held að þvert á móti sé þessi skaði skammtímaskaði sem mun fyrst og fremst bitna á okkur landsmönnum rétt á meðan ástandið vindur stórlega upp á sig erlendis. Þegar það gerist munu atburðirnir sem komu okkur í núverandi stöðu fljótt gleymast erlendis og þá sérstaklega þegar eignum Landsbankans er komið í verð og skuldir til eigenda Icesave verða greiddar. Með þessu er ég ekki að segja kvalir þeirra landsmanna sem þetta bitnar hvað verst á eitthvað minni. Ég er eingöngu að beina sjónum mínum að þessum málflutningi Stöðvar 2 hvað varðar orðstí landsins.

Jón Ásgeir var rétt orðinn allsráðandi í fjölmiðlum á Íslandi fyrir örfáum dögum. Ég er ekki klár á hvernig það stendur en held að það mál sé ekki til lykta leitt og held reyndar að möguleikinn sé enn til staðar. Þessi gjörningur er mögulegur vegna þess að maðurinn á Álftanesinu neitaði að staðfesta lög sem áttu að koma í veg fyrir að þessi staða gæti komið upp. Núna fyrst er að renna upp fyrir fólki alvarleiki þessara mistaka.

Ekki held ég nú að fjölmiðlar hefðu getað stöðvað þá þróun sem leiddi til núverandi ástands. Ég held ekki að fjölmiðlafólk sem hópur sé endilega það vel gefið að það gæti hafa séð þróun mála fyrir eða tekið á henni á einhvern þann máta sem hefði dugað til. Það eru ekki allir fjölmiðlamenn í sama klassa og Agnes Bragadóttir, því miður. Fjölmiðlar sem eru í þeirri aðstöðu að geta illa fjallað á trúverðugan máta um þau öfl sem stýra þjóðfélaginu eru gagnslausir. Fjölmiðlar sem geta ekki tekið fyrir fjármálastofnanir landsins og gagnrýnt vegna þess að þeir eru í eigu þessara stofnana eru ónýtir sem hagsmunagæsluaðilar þjóðarinnar. Þetta hlýtur hvert mannsbarn að sjá.

Aldrei nokkurn tíma hefði Stöð 2 leift sér að birta viðlíka árás á Jón Ásgeir þó hugsanlega hefði oft verið ástæða til. Morgunblaðið hefði aldrei getað birt sannferðuga krítík á Björgólf Guðmundsson. Þessum málum verður einfaldlega að koma í lag. Fyrr geta fjölmiðlar einfaldlega ekki gegnt hlutverki sínu á trúverðugan hátt.


mbl.is Fjölmiðlar í heljargreipum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband