Í guðs bænum slítið þessu samstarfi

Sorglega röð meirihlutamyndana í borgarstjórn Reykjavíkur þetta kjörtímabil þekkja allir og því ekki þörf að rekja þá sorgarsögu en núna get ég ekki orða bundist.

Ég þekki borgarstjóra ekki hót persónulega enda kemur það málinu ekkert við. Ég er ekki heyrnarlaus og blindur á framkomu þessa manns og er það því dagljóst að hæfileikasnauðari borgarstjóra hefur Reykjavík aldrei þurft að þola. Ég taldi að ekki væri hægt að sökkva dýpra þegar Steinunni Valdísi var þröngvað upp á borgina en nú hefur sannast að enn er hægt að komast lægra og hægt er að finna fólk með jafnvel rýrari hæfileika en sú kona hafði.

Ekki nenni ég að taka þátt í því pexi sem í gangi er vegna kastljóss gærkvöldsins því erfitt er að meta hvor stóð sig verr, Ólafur F eða Helgi Seljan. Hitt er víst að báðir komu illa frá þeirri viðureign.

Það sem mig langar er að grátbiðja borgarstjórnarflokk Sjálfstæðisflokksins  að finna ástæða, einhverja ástæðu, til að slíta núverandi samstarfi við Ólaf F. Magnússon. Þetta samstarf er til skammar. Þið sitjið í súpunni og munið þurfa að dragnast með þennan draug út kjörtímabilið og að því loknu tapa næstu borgarstjórnarkosningum á svo stórkostlegan máta að það verður erfitt að ná landi í langan tíma eftir það. Það má einu gilda hversu góð ykkar verk verða það sem eftir lifir þessu kjörtímabili. Þið sitjið uppi með þvergirðingslegasta sauðhaus sem reikað hefur um völl stjórnmálanna frá upphafi tíma (nema kannski er vera kynni að Hjörleifur sé verri) og það hvort sem gripurinn er borgarstjóri eða ekki. Hann gaf það út nýverið að hann "gæfi engan afslátt" á skoðunum sínum hvort sem hann væri í stjórn eða stjórnar andstöðu. Þetta hlýtur að gefa ykkur vísbendingar um að hann verði ykkur ekki bara erfiður ljár í þúfu á meðan hann lítilsvirðir borgarstjóraembættið, hann verður ykkur dragbítur út kjörtímabilið og kemur í veg fyrir að þið komist nálægt endurkjöri ef þið þraukið til enda.

Ef þið finnið ykkur leið til að slíta þessu samstarfi og gangið út með einhverskonar reisn núna og sitjið á hliðarlínunni það sem eftir lifir kjörtímabili án þátttöku í borgastjórn er eilítill möguleiki að misgjörðir þess meirihluta sem við tekur verði nægar til að dapurt minni kjósenda breiði yfir það vandræða ástand sem komið er á í borginni. Ykkar núverandi þátttaka í dapurri atburðarás í borgarstjórnarmálum hefur klárlega áhrif á landsvísu þó að framganga núverandi vinstri stjórnar vegi þar reyndar þungt líka.

Ekki draga um of að slíta þessu samstarfi. Vaknið og víkið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband