Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Endurbæturnar holdi klæddar

Eitt af helstu ádeilu- og hitamálum undanfarinna missera hefur verið hvernig ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma hafa hyglt fólki sem talið hefur verið þeim handgengið eða á einhvern máta tengt. Ráðningar hliðhollra og innvígðra hefur sviðið þjóðina og þeim hefur verið mótmælt hástöfum. Nýverandi valdhafar hafa farið þar fremst í flokki á undanförnum árum. Þetta hefur verið kallað spilling og hana ætluðu núverandi valdhafar að uppræta.

Núna kveður við annan tón hjá skinhelgum valdhöfunum. Nú eru forsvarsmenn hliðhollra pólitískra ungliðahreyfinga og aðrir nánir pólitískir jámenn ráðnir holt og bolt. Ráðningarnar eru kallaðar tímabundnar svo ekki þurfi að vesenast í tafsömu auglýsingavafstri. Bjástri sem gæti komið í veg fyrir að "rétt" fólk ráðist í laus störf hjá Vinstri-grænum og fylkingunni bara út af einhverjum leiðindum eins og þeim að hæfari einstaklingar sæki um laus störf.

Ég velti fyrir mér hvað olli þessum sinnaskiptum.

Það er þjóðinni alkunna hvernig Steingrímur "skatthækkandi" Sigfússon hefur snúið algerlega ofan af sínum stærstu baráttumálum og sannfæringum fyrri ára varðandi ICESAVE og ESB til þess eins að haldast í ráðherrastóli. Því ætti þetta nýjasta útspil hans og samráðherra kannski ekki að koma mér svo mjög á óvart.

Athyglisverð sinnaskipti og óvænt hve fáa silfurpeninga þarf til að þessi skelfilega vinstristjórn leggi niður sínar sannfæringar og taki upp þau vinnubrögð sem þetta fólk hefur gagnrýnt hvað harðast.


Hörku barátta

Landbúnaðar og sjávarútvegsráðherra sagði í morgunúrvarpinu í morgun "Vinstri Græn munu standa alveg einörð í að berjast gegn aðild að Evrópusambandinu". Þetta eru bardagamenn hinir mestu. Svo einarðlega berjast þau að meirihluti þingflokks VG samþykkti að sækja um aðild.

Með umsóknaraðild eru:

  • Árni Þór Sigurðsson,
  • Álfheiður Ingadóttir
  • Svandís Svavarsdóttir
  • Lilja Mósesdóttir
  • Ögmundur Jónasson
  • Steingrímur J. Sigfússon
  • Bjarkey Gunnarsdóttir
  • Katrín Jakobsdóttir

Andvíg aðild:

  • Atli Gíslason
  • Þuríður Backman
  • Lilja Rafney Magnúsdóttir
  • Ásmundur Einar Daðason
  • Jón Bjarnason

 Þú segist ekki berjast gegn aðild í einu orðinu og sækist eftir aðild í hinu. Það að fela sig bakvið að þetta útkljái málið bara í eitt skipti fyrir öll er bara bull. Nú mun liggja fyrir að Norðmenn sem eru búnir að hafna aðild í tvígang þurfa að gera það einn ganginn enn.

Þegar við höfnum aðild, eftir eitt og hálft til tvö ár og óskaplegan tilkostnað, mun það bara þýða að þeir sem ekki sætta sig við þá niðurstöðu munu bera fyrir sig alls kyns fullyrðingar að ekki hafi verið farið rétt að og munu hefja sama sönginn á ný. 


Í guðs bænum lesið samninginn

Ég leyfi mér að setja hérna link á annan ICESAVE samninginn eins og hann er á island.is. Það tekur ekki langan tíma að lesa þó sumar málsgreinar þurfi að marg-lesa til að skilja þær. Stundum þurfti ég að marg-lesa vegna þess að ég trúði því ekki að ég væri að lesa samning sem Svavar Gestsson gerði fyrir mína hönd. Ég held að ég yrði fangelsaður fyrir tilraun til að koma svona samningi á íslenskan almenning.

Þar eru tvö eintök á íslensku, annað vegna breta og hitt vegna hollendinga. Þeir eru sambærilegir og lykilatriðin jafn slæm í báðum.

http://www.island.is/media/frettir/icesave_samningur_milli_islendinga%20og%20breta.pdf


Baksýnisspegillinn er ágætur en hann sýnir bara það sem er að baki.

Umræðan í öllum fjölmiðlum og alls staðar í bloggheimum er á einn veg. Hver gerði hvað og af hverju. Það fer lítið fyrir vangaveltum um hvernig það fólk og flokkar sem í framboði muni standa sig í framtíðinni. Þetta er undarlegt þar sem það er framtíðin sem skiptir öllu.

Ég hef verið að velta vöngum yfir hvor skila beri auðu eða greiða atkvæði. Það að skila auðu er vissulega að taka afstöðu. Spurningin er kannski helst hvort ég er tilbúinn í að fórna kosningaréttinum til þess eins að gefa einhverja yfirlýsingu sem síðan enginn veit hver er og fólk túlkar hver með sínu höfði. Ég er farinn að hallast að því að það sé rangt.

Það hvernig einhver þingmaður stóð sig í fyrra eða hingað til segir mér lítið um hvernig sá þingmaður mun standa sig í framtíðinni við aðstæður sem við höfum aldrei séð áður. Því er svo komið að ég held að það væri afar misráðið að skila auðu.

VG: Það kemur eðlilega ekki til greina að kjósa kommúnista í neinu formi, það er glapræði að hleypa einstrengingslegum öfundarsjónarmiðum róttækra vinstrimanna sem boða skattahækkanir og launalækkanir sem lausnir að stjórnvelinum. Fólk sem ætlar að koma ekkjuskattinum á aftur og setja hátekjuskatt á allt sem er yfir meðallaunum á ekki að koma nálægt því að stjórna Íslandi.

Fylkingin þekkir bara eitt ráð í bráð og lengd og það er ESB. Flokkur sem hefur ekki fleiri úrræði kemur ekki til greina.

Frjálslyndi flokkurinn er ekki lengur til og farið hefur fé betra.

Borgara-hvað-sem-það-heitir er samansafn af ósamstæðum mótmælendum þar sem sýnist sitt hverjum án eiginlegrar stefnu og kemur þess vegna aldrei til greina.

Ástþór og kó nenni ég ekki að útskýra.

Eftir standa Framsóknarflokkurinn sem boðar 20% niðurfærslu og Sjálfstæðisflokkurinn með sambærilega áherslu. Þarna þarf ég núna að velja á milli.


Þetta kallar Ástþór staðreyndir

Á hádegisráðstefnu SKÝ nýverið hélt Daði Ingólfsson afar fróðlegt erindi. Glærurnar úr erindi hans má sjá hér á síðu SKÝ http://www.sky.is/images/stories/2009_Rafraenar_kosningar/4_Dadi.pdf Ég bendi fólki á síðu 4 í þessu erindi. Þetta notaði Ástþór Magnússon á borgarafundinum á Nasa í gærkvöldi og vísaði í sem staðreyndir. Hann sagði eitthvað á þá leið að maður hefði sannað að 94% af loforðum fyrir kosningar væri svikið eftir kosningar. Ég var á þessari ráðstefnu og það var Ástþór líka. Daði margendurtók að þetta væri algerlega skot út í loftið en samt vísar friðardúfan í þetta sem sannleika máli sínu til stuðnings.

Þessi maður kallar eftir stuðningi í næstu Alþingiskosningum. Nú þarf fólk að vara sig á lýðskrumara aldarinnar.


Hvar er fólkið núna

Hávaði, múgæsingur, læti, og ákaft ákall um endurnýjun skilaði nánast engu.

Hvar er núna fólkið sem baðaði út öllum öngum og rændi völdum í landinu í vetur? Þetta fólk skilaði sér ekki í prófkjör. Nánast engin endurnýjum hefur orðið á framboðslistum. Frábærlega efnilegt nýtt fólk reyndi að komast að til að taka á hlutunum en kjósendur mæta ekki einu sinni á kjörstað í forval og prófkjör. Þeir sem mætti merktu við reitinn status quo.

Geysi öflugt, nýtt og efnilegt fólk reyndi að komast að á öllum listum. Þeim var bara ekki hleypt að. Sá áhugi á breytingum sem haft var hæst um virðist ekki vera til staðar. Kannski að ástæðan sé önnur. Kannski ástæðan sé það ægivald sem flokksmaskínur hafa á fólki. Þegar fólki rennur æðið tekur við andvaraleysi.

Hvað er til ráða? Ef einhver von á að vera á endurnýjun þarf að innleiða persónukosningar og það strax! Lausn til lengri tíma felst í gagngerum hugarfars og kerfisbreytingum. Rödd fólksins (nei og aftur nei, ekki Hörður Torfason!) þarf að fá að komast að á milli kosninga. Þessa stundina er fólk hvert í sínu horni að ræða útfærslur á öflugri samskiptum og boðmiðlun meðal manna. Frosti Sigurjónsson viðraði fyrir mér ansi athyglisverðar hugmyndir núna nýverið. Ég leyfi honum að tala fyrir þeim á sinn máta.

Þó geysi öflug umræða sé í gangi held ég að bein aðkoma fólksins að ákvarðanatöku verði ekki gerleg nema með rafrænum kosningum. Athugið, rafrænar kosningar eru mikið ádýrari og einfaldari í framkvæmd en hefðbundnar kosningar.

Þegar búið er að koma á rafrænum kosningum er hægt að beita þeim í smáum og stórum stíl á afar ódýran og fljótlegan máta hvenær sem er. Rafrænar kosningar má nota til Alþingis-, Forseta- og sveitarstjórnarkosningar. Það er hægt að nota þær til að kjósa á stjórnlagaþing og til að kjósa um niðurstöðu þess þings. Það er hægt að beita þeim við þjóðaratkvæðagreiðslu hvenær sem er og skoðanakannana í litlum og smáum stíl með skömmum fyrirvara.

Beint lýðræði er vel gerlegt á tryggan og einfaldan máta án þess að nokkur möguleiki sé á því að fylgjast með hvernig einstaklingar nota atkvæði sitt. Þetta get ég fullyrt af því að ég hef útfærslu á slíku í höndunum.


Prófkjör í Reykjavík

Konunni minni fannst erfitt að fá yfirsýn yfir hver biður um hvernig stuðning í prófkjöri Sjálfstæðismanna í Reykjavík næstu helgi. Þess vegna setti hún saman þennan lista sem ég læt fylgja með þessari færslu. Með þessa samantekt við hendina eru hlutirnir mun skýrari.
Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband