2.12.2009 | 17:02
Íbúakosningaklúður
Um þessar mundir er mikil undiralda í þjóðfélaginu og mikið kallað eftir meiri og betri aðkomu íbúana að ákvarðanatöku stjórnvalda. Aukið lýðræði er mantra sem sífellt meira er kyrjuð.
Ég hef verið mjög áhugasamur um rafrænar kosningar og þá möguleika sem þær bjóða uppá varðandi bætta aðkomu fólksins að fyrrnefndri ákvarðanatöku. Því er það að ég hrökk notalega við þegar ég sá að Reykjavíkurborg er búin að opna fyrir aðkomu borgaranna í málefnum sem varða forgangsröðun verkefna hjá Borginni. Stórgott, lofsvert framtak núverandi borgaryfirvalda sem undanfarið hafa haldið all-nokkra borgarafundi um skipulagsmál. Því var það með nokkurri eftirvæntingu sem ég fór inn á vefinn www.reykjavik.is/kjostu og tók þátt í þessu fína framtaki. Þetta var spennandi.
Ég kaus, og ég kaus. Já ég kaus tvisvar! Reyndar hafið kerfið vit á því að leyfa mér ekki að kjósa tvisvar með minni kennitölu, það leyfði mér heldur ekki að kjósa með kennitölu fyrirtækis. Kerfið leyfði mér hins vegar að kjósa með kennitölu sonar míns! Ég reyndi bara eina kennitölu umfram mína en það er líka alveg nóg. Þess má geta að ég fékk leyfi hans til að gera þetta.
Grundvöllur svona rafrænna kosninga og velgengni þeirra er traust. Kjósandinn verður að geta treyst kerfinu og niðurstöðum þess.
Ýmislegt þarf að vera tryggt. Meðal þess er að tryggt verður að vera að:
- atkvæði skili sér í talningu
- að kosning sé leynileg
- að kjósandi sé rétt auðkenndur
- að ekki sé hægt að kjósa oftar en einu sinni.
Það eru fleiri hlutir sem þarf að huga að en ég læt þetta nægja í bili. Ef þessir hlutir eru ekki tryggðir getur kjósandi ekki nýtt sér sinn atkvæðisrétt og treyst því að viðeigandi kosning skili neinum árangri.
Svona framkvæmd á rafrænum kosningum er algerlega óþolandi og gerir framkvæmd alvöru rafrænna kosninga þeim mun ólíklegri þar sem þetta grefur stórlega undan vilja kjósenda til að skilja við pappír og blýant á kjörstað.
Núna er allt eins líklegt að einn kjósandi hafið kosið þúsund sinnum um að fá hraðahindranir við Smárarima frekar en að nota peningana í miklu mikilvægari verkefni á borð við fjölgun og ruslastampa í hverfinu.
Hvað veit ég úr því svona illa tókst til?
Athugasemdir
Það stóð til að staðfesta hverja kosningu með því að senda númer í gemsa viðkomandi og láta hann slá það inn, en á siðustu stundu var hætt við að gera það, vegna einhverra tæknilegra erfiðleika, sýndist mér á öllu.
Gengur betur næst, býst ég við.
Kári Harðarson, 2.12.2009 kl. 22:19
Ef upp koma svona vandamál á að fresta framkvæmdinni vegna þess að þetta er afskaplega viðkvæmt mál. Það eru of mörg dæmi um klúðraðar rafrænar kosningar og því mikilvægt að einhver lágmarks tilraun sé gerð til að hafa framkvæmdina eðlilega.
Ef þetta væri spurning um að velja uppáhalds litinn eða fallegustu styttu bæjarins væri hugsanlega hægt að slaka eilítið á en þegar þetta snýst um alvarlegri hluti eins og að leifa borgurunum að hafa áhrif á stjórnsýsluna þarf framkvæmdin að vera traustvekjandi. Þessi var það ekki.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 3.12.2009 kl. 09:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.