21.7.2015 | 12:01
How to lie with statistics
Fyrirsögnin vísar í heiti afar gagnlegrar bókar eftir Daniel Huff sem gefin var út 1954. Síðan hefir mikið vatn runnið til sjávar en efni bókarinnar á mjög vel við enn í dag.
Í þessari viku hefur ný könnunin á lifshamingju, hag og fjárhagsstöðu verið birt á vef maskina.is Þessi könnun hefur verið til umfjöllunar undanfarna daga. Mest hef ég heyrt um þetta rætt á RÚV, hvernig sem á því stendur.
Þessi umfjöllun minnir mig mjög á pissukeppni flokkspólitísku málgagnanna hér áður. Þið munið hvernig þetta var. Ef vinstri menn héldu mótælafund einhvers staðar var birt mynd í Þjóðviljanum sem tekin var beint framan við hópinn þannig að mannfjöldinn fyllti rammann og myndatexti gaf til kynna að ógrynni manns hafi verið á staðnum. Á sama tíma birti Mogginn loftmynd tekna með gleiðlinsu sem sýndi handfylli manns í hnapp og textinn útskýrði fyrir okkur að enginn áhugi hefði verið á málefninu eins og dræm mæting sýndi svo vel. Þetta virkaði nákvæmlega eins á báða bóga. Fréttaflutningur miðaði að því að lita niðurstöður þóknanlegum litum þess sem flutti.
Það sem sló mig í þessari nýjustu umfjöllun var setning úr niðurstöðum könnunarinnar sem sífellt var endurtekin og hljóðar svona: "Kjósendur Pírata eru ólíklegastir til að ná endum saman, eða næstum 40% þeirra (14,3% + 24,5%) en meira en 55% kjósenda Sjálfstæðisflokksins eiga afgang um hver mánaðarmót"
Þetta vakti enga athygli í umfjölluninni á RÚV.
Hvað þýðir þetta? Í hnotskurn er niðurstaðan þessi. 38,8% kjósenda Pírata ná illa, eða ekki, endum saman en 61,2% þeirra ná endum saman eða eiga afgang.
Hinn hluti þessarar setningar merkir að uþb. 45% kjósenda Sjálfstæðsflokks eiga ekki afgang í lok mánaðar en 55% þeirra eiga afgang.
Af hverju eru þessar tölur ekki birtar þannig að þær séu samanburðarhæfar? Hvert er hlutfall Pírata sem ná ekki endum saman að viðbættum þeim sem ná endum saman án þess að eiga afgang?
Núna ætla ég ekkert sérstaklega að gera neinum upp neitt sérstakt viðhorf eða afstöðu og læt öðrum bara eftir að túlka þessa framsetningu hver fyrir sig en finnst sjálfum að eitthvað skorti á gagnrýna hugsun í þessari umfjöllun.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.