9.12.2014 | 12:20
Útvarps og sjónvarpsstöðvar í áttunarvanda
Þessa dagana verður æ betur ljóst að eðli sjónvarps- og útvarpsrekstrar hefur núna breyst varanlega.
Staðan er núna þannig að enginn (nánast og almennt) undir þrítugu lætur rekstraraðila útvarps- og sjónvarpsstöðva (ÚogS) segja sér lengur hvenær á að horfa eða hlusta. Í alllangan tíma hafa þjónustur á borð við Netflix og þess háttar hlaupið í skarðið og veitt fjölbreytni og sveigjanleika þar sem ÚogS hafa staðnað. Yngra fólk nær sér í það efni sem það óskar þegar því hentar. Ef þau vilja horfa á eitthvert efni fara þau á netið og ná í heilu seríurnar og horfa þegar þeim hentar. Ekki klukkan 20:00 næsta þriðjudag og aftur viku seinna.
Þau láta ekki bjóða sér að rekstraraðilar stjórni tíma þeirra á meðan að þeir, á sama tíma, driti inn sífelldum truflunum í formi auglýsinga og neyslustýringar. Það er pirrandi og úrelt.
Ég heyrði nýverið í útvarpinu viðtal við mann sem benti á að ástandið á ÚogS væri orðið alveg prýðilegt. Núna væri hægt að horfa á efni síðasta sólarhrings í tímaflakki og tvær vikur aftur í tíman af uppteknu efni úr útsendingu. Ofan í kaupið eru núna komnar þokkalegar myndaleigur (VOD) sem bjóða uppá efni á hóflegu verði, allt væru þetta stór skref í rétta átt.
Ég er sammála honum og átta mig æ betur á því að þetta eru skref í rétta átt. Ég er sjálfur orðinn leiður á að láta skammta mér einn lítinn bita af efni á viku og láta mig svo bíða í viku eftir næsta mola. Þetta kæri ég mig ekki um lengur.
Það er er orðið tímabært að ÚogS átti sig á þessu og viðurkenni að slagurinn við efnisneyslu af netinu er tapaður.
Það er vissulega stórt skref í rétta átt, eins og gerist núna í auknum mæli, að bjóða uppá heilar seríur af einstökum þáttum í einu en það er samt ekki alveg nóg. Valið á efni á að vera mitt og ég vil losna undan stýringu stöðvanna og hvað er í boði hvenær.
Núna, þegar sífellt verður erfiðara að halda athygli viðskiptavinanna, hlýtur áhersla ÚogS að beinast að því hvernig hægt er að ná til fólks til að tryggja að rekstrargrundvöllur sé til staðar. Stöðvarnar hljóta að auka framboð af efni sem neytandinn getur valið þegar neytandanum hentar. Áherslan hlýtur núna að vera á að uppfylla óskirnar með þjónustu sem tekur tímabindingu út fyrir sviga og leyfir neytendum að stjórna sínum eigin tíma.
Það má vel vera að suma hluti sé gott að fá í smá skömmtum og láta einhvern tíma líða á milli. Með því móti verður upplifunin sterkari og eftirvæntingin verður hluti af af upplifuninni. Þetta á við viðburði á borð við Jól, áramót, og afmæli en ekki Survivor, Downton Abbey eða NCIS, ekki einu sinni fréttir. Því fyrr sem stöðvarnar átta sig á því, þeim mun líklegra er að þær lifi í sífellt harðnandi samkeppni um athygli viðskiptavinanna.
Þegar þessar augljósu staðreyndir blasa við er undarlegt að RÚV tryggi reksturinn með því að draga úr því sem fólk vill helst, tímafrelsi.
Innantóma frauðið sem boðið er uppá í formi afþreyingar frá USA eða Bretlandi þjónar þeim tilgangi að gefa okkur hlé frá Kilju Egils Helgasonar og Landanum.
Þeir þættir eru vissulega ágætir í flokki slíkra þátta og fólkið sem að baki þeim stendur er alveg ljómandi, en þetta er bara efni sem höfðar til ákveðins takmarkaðs hóps áhorfenda.
Þegar búið er að belgja mann út af innblásnum umfjöllunum um nýlist og vandaðri fræðslu um vaxtarskilyrði fjallagrasa og jaðrakana er ágætt að fá sér heilakaramellu í formi CSI eða Mrs. Brown's Boys, og ég vil fá að horfa á það þegar mér hentar.
Ef ÚogS vilja halda lífi er ráðið að sækja fram en ekki pakka í vörn. Ekki draga úr gæðunum og áhuga mínum á að neyta og greiða fyrir. Sem stendur er ég tilbúinn að greiða en sá tími er á enda þegar það sem ég greiði fyrir verður sífellt lélegra.
Fólki verður tíðrætt um menningarlegt hlutverk RÚV, plötusafnið, hljómleikahald og fleira í þá veru. Líkast til er þetta allt satt og rétt. Það sem vefst fyrir mér varðandi þetta er að fólk lætur almennt eins og eingöngu RÚV geti gert þetta, það sé einhver sérstakur hæfileiki sem í þeirri stofnun býr sem sé svo einstakur að öðrum sé ekki kleyft að standa fyrir þessum uppákomum. Óli Palli, Guðni Már, og allt hitt starfsfólk RÚV er sómafólk sem sinnir starfi sínu af miklum metnaði og stendur sig vel. Það er gjarnan sagt að stöðvarnar séu ekkert annað en fólkið sem á þeim starfar og að þess vegna sé bara ekkert hægt að selja RÚV. Ég held að þetta fólk myndi starfa við sitt fag með engu minni sóma þó mitt skattfé væri ekki nýtt í að greiða fyrir það.
Plötusafnið og upptökurnar eru vissulaga mikil gersemi og þeir hlutir hætta ekkert að vera til þó hlutverk RÚV sé endurskilgreint á þann hátt að dægurflugur og stundarþras sé sett í hendur annara.
Vissulega hefur RÚV gegnt stóru hlutverki í gegnum tíðina, og gegnir enn. Það er samt tímabært að ráðendur á þeim bæ átti sig á hversu mikið nátttröll sú stofnun er orðin. Þau eru búin að missa af lestinni og missa frá sér æ stærri hluta landsmanna með hverjum degi sem líður. Það er ekki vegna þess að þetta er Ríkisstofnun eða af því að Síðdegisútvarpið er svona en ekki öðru vísi. Það er vegna þess að Netflix, Grooveshark, tonlist.is, iTunes, Spotify og sambærilegt geta boðið okkur það sem við óskum eftir. Við höfum ekki ríka þörf fyrir að upplífa RÚV í því formi sem ráðamönnum þar á bæ þóknast. Þau verða að gera sér grein fyrir þverrandi áhuga fólks á að bíða eftir að útvörpurum þóknast að veita þeim aðgang að því efni sem það vill.
RÚV á sér réttlætingu, hlutverk og syllur að híma á. Ég ólst upp við eitt Ríkisútvarp/sjónvarp sem ekki sendi út á sumrin og ekki fimmtudögum. Fyrir rest fyllti Kaninn í eyðurnar og það kom sér bara vel. Núna tala ég ensku vel af því að þá var ekkert talsett. Fram að Kananum var grautfúlt að geta ekki horft á sjónvarpið og þó einhverjir virðist minnast þess í rósrauðum bjarma fagurra æskuminninga og leikja úti á kvöldin var það engu síður svo að það var jafn svekkjandi þá og það er í dag að þurfa bíða í heila viku eftir að Sjónvarpinu þóknist að senda út næsta mola af dúsu.
Nú er svo komið að ég er hættur að nenna að hlusta á Rás 2 af ýmsum ástæðum sem varða minn persónulega smekk. Fyrir mig er Rás 1 langbesti kosturinn í tímamýldum smáskömmtum. Það annað sem ég hlusta á er efni sem ég sæki mér þegar mér hentar, ýmist gegna greiðslu eða frítt.
Á vef RÚV, og annarra, er vissulega hægt að nálgast efni sem búið er að senda út, með ákveðnum takmörkunum. Það er ekki það sem ég er að tala um. Ég er spenntari fyrir efninu sem ekki er farið í loftið, þó hitt sé ekki síður nauðsynlegt.
Mér er alveg ljóst að þegar nægilega margir missa áhugann á að greiða fyrir efnið verða ekki lengur til peningar til að búa til nýtt efni. Það er því þeim mun nauðsynlegra fyrir fólkið í þessum bransa að átta sig á að formið sem í boði er í dag trekkir ekki lengur og er ástæða þess að neytendurnir snúa sér annað í sífellt auknum mæli.
Hættum að berja hausnum við steininn. Tæknin til að veita efni til neytenda þegar okkur hentar er til staðar nú þegar og það verður ekki aftur snúið.
Bjóðið mér það sem ég vil þegar ég við það eða missið minn stuðning ella.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.