5.6.2014 | 13:58
Allt í nafni trúarbragða
Þessa dagana verður fólki tíðrætt um umburðarlyndi, kosti þess og galla. Umræðan er á þá leið að núna eigi allir að hunsa bakgrunn og fortíð og líta fram á við með opinn huga og víðsýni. Deilur um útlendinga, innflytjendur, og trúarbrögð tröllríða fjölmiðlum, bloggum og samfélagsmiðlum. Eins og við er að búast sýnist þar sitt hverjum. En um hvað snýst málið og af hverju þurfum við að kalla eftir einhverju sérstöku átaki í manngæsku og umburðarlyndi? Það er út af Guði!
Langflest fólskuverka mannkyns í gegnum aldirnar hafa verið framkvæmd vegna þess að hópar fólks hafa myndað þrýstihópa áhugafólks um það sem ég kýs að kalla ímyndaða "Veru" sem hefur þá sérstöðu að vera eina "Veran" sem getur hafa búið heiminn til. [Mér hefur verið bent á að ég vísa hér í eingyðistrúarbrögð. Til einföldunar ætla ég að halda mig við eintölu en árétta að þessi Vera gæti allt eins verið samansafn af ýmsu tagi] Veran heyrir hvað allt mannkyn hugsar á hverri stundu, veit hvað hver og einn ætlar að gera, ákveður örlög okkar allra og hefur það sérstaka markmið að eyða heiminum þegar ákveðin skilyrði hafa verið uppfyllt. Þessi Vera bjó allt til en því er látið ósvarað hver bjó þessa Veru til og í því felst gapandi rökvilla. Þessir hópar eru, og hafa verið, geysimargir. Allir hóparnir eru samstíga á einna hátt, þeirra vera er eina Veran. Í það minnsta er þeirra Vera eina rétta Veran og allir hinir hóparnir hafa einfaldlega rangt fyrir sér varðandi sína Veru. Sumir hóparnir ganga svo langt að móðgast út af því að aðrir hópar eru ósammála þeim um Yfirveru, nægilega móðgaðir fyrir hönd Verunnar að þeir grípa til ráðstafana til að lagfæra skoðanir hinna.
Margir þessara hópa koma sér upp hlíf utan um þessar skoðanir sínar. Þeir búa til reglur um hvernig fólk á að hegða sér. Hóparnir búa til kennisetningar sem þeir síðan fullyrða að kenni mannkyninu muninn á réttu og röngu. Kennisetningarnar eru svo öflugar að fólk sem tileinkar sér þær verður ósjálfrátt góðir einstaklingar. Tilgangurinn helgar meðalið og meðalið er geysiöflugt. Meðalið svífst einskis, gefur engin grið. Allir skulu lesa og læra kennisetningarnar góðu og umbreytast í gott fólk við það. Veran fær í flestum tilvikum sérstakt samband við fáeina útvalda einstaklinga í hópunum sem segja hinum hvað Veran ætlast til af þeim. Óskir hennar breytast dálítið í takt við tíðarandann, en Veran er ekki alls kostar ánægð með ástandið og gerir sífelldar kröfur um að hafa meiri áhrif. Gegn auknum áhrifum er meðlimum hópanna lofað umbun. Það eina sem félagarnir þurfa að gera er að líta fram hjá skynsemi, láta rök fyrir róða, og hlýða í einu og öllu. Fyrir slíka hegðun hljótast ríkuleg laun, en ákúrur ella. Í sumum tilvikum, allflestum reyndar, verða félagarnir stikkfrí og þurfa ekkert að hafa áhyggjur af því að deyja. Það vandamál er tekið út fyrir sviga ef menn bara gera eins og Veran vill. Shalom, ahkbar og amen koma mönnum á leiðarenda, en bara þeim útvöldu sem best gengur að láta skynsemina róa. Ef áhangendur eru ekki dúsir við reglurnar fara þeir beina leið í steininn og fá sko engar 200 krónur fari þeir yfir byrjunarreitinn. Í steininum verður vistin slæm og hún verður varanleg. Reyndar hafa sumir hóparnir komið sér upp skammtíma gæsluvarðhaldi sem félagsmenn geta stytt vistina í með fjárframlögum en þau verða að vera fyrirframgreidd.
Forvígismenn hópanna voru, og eru, slyngir. Þeir sem stofnsamþykktirnar skrifuðu settu inn sérstakar hliðarsporavarnir, einskonar vegrið andans, sem heldur fólki á brautinni. Einn hópurinn, til dæmis, bannar félögunum að skipta um skoðun að viðlögðu lífláti, sem síðan fylgir ferðalag lóðbeint í steininn vonda og varanlega. Margir hópanna meina félögunum að deila lífinu með meðlimum annarra hópa að viðlögðum brottrekstri og útskúfun. Enn einn hópurinn hefur komið því í landslög að ekki megi krítisera skoðanir hópsins. Allir eiga þeir það sammerkt að snúast öndverðir við tilraunum annarra hópa að ná til sín nýjum félögum og allir gera hóparnir þetta af stakri manngæsku og með velferð fólksins síns að leiðarljósi. Margir hópanna segjast segjast bókstaflega ætla að umbera skoðanir annarra þó greyin sem eru villuráfandi lendi vitanlega í fangelsi eymdar til eilífðar fyrir afstöðu sína, í fyllingu tímans. Aðrir hópar eru svo góðir í eðli sínu að þeir setja sér það sem markmið að snúa öllum öðrum á sitt band eða drepa ella, af því að Veran góða elskar alla svo heitt. Einn er sá flötur sem allir hóparnir halda í heiðri, bann við samkynhneigð.
Það er fleira sem hugsa þarf útí. Þó að Veran sé alltsjáandi, alvitur, og sé hreint og beint alls staðar er ekki sama hvar og hvernig umboðsmenn hennar standa að því að hafa samband. Um það gilda strangar reglur. Það þarf að klæða sig uppá í sérstakar dulur sem félagsmenn hafa keypt á umbann. Það þarf að fylgja sérstökum siðareglum og ekki er nú ónýtt ef umbinn kanna að tala eitthvert leynimál sem restin af hjörðinni ekki skiljur, það er svo hátíðlegt og í því er soddan upphefð. Staður, tími og aðferð skipta líka öllu. Sumir hópanna þurfa að hafa samband allan sólarhringinn með reglulegu millibili, til að tryggja að engin fái fullan svefn. Við samskiptin þarf aukinheldur að snúa í rétta átt sem miðast við landfræðilega staðsetningu þrátt fyrir að Veran sé alls staðar og heyri allt. Sumir hóparnir þurfa að spjalla í reykjarkófi og enn aðrir í vímu. Allir hóparnir þurfa að eiga hús undir þessi spjöll. Húsin þurfa að vera stærri, íburðarmeiri og dýrari en hús hinna til að það sé lýðum ljóst að þeirra Vera skaffi betur. Þótt undarlegt megi virðast er Veran, þessu almáttuga, í sífelldum fjárkröggum og þarfnast stöðugs straums fjárframlaga félaganna. Þótt það hljómi undarlega eru þess dæmi að það sé bundið í lög landa að fjármagna starfsemi svona hópa, og þá hygla einum umfram aðra, með skattfé borgaranna.
Einhver hefði haldið að eftir því sem upplýsingin verður útbreiddari og mannkynið nær betri skilningi á eðli hlutanna myndi rofa til og dula bábilja og hindurvitna myndi falla. Í það minnsta mætti búast við að á hana kæmi ofurlítil rifa semskynsamt fólkið gæti séð í gegnum til að ná sönsum, en því er, vondu heilli, ekki að heilsa. Stífnin, belgingurinn og sjálfbirgingshátturinn tekur bara á sig nýjar myndir. Ef erfitt er að skilja einhvern hlut eða fyrirbæri er handhægast að skrifa það á reikning Verunnar og trúa því bara undanbragðalaust að Veran kunni skil á öllum hlutum og því sé óþarfi fyrir mannfólkið að gera það líka. Vísindi og skilningur, upplýsingar og útskýringar mega víkja fyrir blindri trú og viðvarnandi skorti á þörf fyrir vitneskju.
Við skulum ekki fyrir nokkurn mun halda það hérlendis að þó að Conquistadores, Rannsóknarrétturinn, og Krossferðirnar heyri fortíðinni til
sé núna allt í himnalagi hjá kristnum í seinni tíð. Ég minni á íslenska Biskupa af ýmsum bragðtegundum og þeirra barngæsku. Ég minni á framkomu einstakra presta innan og utan Þjóðkirkjunnar sem eru svo fullir af sanntrúnaði að einföld mannréttindi eru hunsuð. Það er ekki svo að allt hafi einfaldlega lagast yfir nótt á síðasta ári við það eitt að núna er kona biskup.
Þó að ansi skrautleg ofbeldisfortíð Múslima sé nánast öll erlendis skulum við hafa hugfast að jafnvel hérlendis skiptist sá hópur í tvennt eftir mismunandi magni af ofstæki.
Við skulum ekki halda að þó að Gyðingar hafi fengið sína landspildu fyrir tilstilli Sameinuðu þjóðanna að þeirra ofbeldisverkum hafi linnt. Þau fara heldur í aukana og um alla jörðina standa þeir fastara á því en fótunum að þeir séu guðs útvalda þjóð.
Þetta á við um nánast öll trúarbrögð, sama hvaða nöfnum þau nefnast. Æ oftar koma mér í huga orð Voltaire: "Those who can make you believe absurdities, can make you commit atrocities." (Þeir sem fá þig til að trúa fáránleika, geta fengið þig til að framkvæma illvirki.)
Allt í nafni trúarbragða.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.