Reikistjórn Íslands tafsar

Dómur liggur fyrir. Tenging greiðslna lána við daggengi erlendra gjaldmiðla er ólögleg. Annað í samningum um myntkörufulán er löglegt.

Viðbrögð Reikistjórnar eru þau að fólk geti bara étið það sem úti frýs.

Það góða í stöðunni er að Reikistjórnin ætlar ekki að setja einhvers konar lög sem tryggja rétt fjármálafyrirtækja. Það slæma í stöðunni er að þessi sama stjórn ætlar ekki að slást í lið með þjóðinni og setja pressu á fjármálafyrirtækin.Menn byrja að kyrja einhvern söng um að ef búið er að rétta hag þeirra sem voru í alverstu stöðunni þá sitji hinir eftir með verri lán. Það er bara allt önnur umræða og jafnvel glittir í lausn fyrir þennan hóp þar sem eru málaferlin sem Sigurður G. Gupjónsson er að fara í fyrir umbjóðanda sinn þar sem segir að lántakandi og lánveitandi eigi á einhvern máta að deila ábyrgðinni á forsendubresti.

Hvað er fólk að hugsa? Ég tók svona myntkörfulán þó ekki svo há að ég væri í neinni sérstakri hættu. Ég tók þessi lán VEGNA ÞESS að þau voru hagstæðust. Pétur Blöndal segir ranglega að óhagstæðustu lánin séu nú skyndilega orðin hagstæðust. Skekkjan er vitanlega sú að þau voru lang-hagstæðust og ef þessir glæpamenn í fjármálafyrirtækjunum hefðu ekki komið okkur í þessa stöðu hefðu þau verið hagstæðust allan tíman.

Nú ætti Reikistjórnin að grípa þetta gullna tækifæri og hlaupa undir bagga með þjóðinni. Núna þurfa þau ekki að samþykkja neinar tillögur frá pólitískum andstæðingum. Nei, núna geta þau þegið þessa hjálp sem Hæstiréttur réttir þeim og aðstoðað þá sem þessi dómur kemur sér vel fyrir. Ekki snúast í aðgerðaleysisvörn og halda að sér höndum. Ekki núna.

Hafið döngun í ykkur til að gera loksins eitthvað núna þegar þið fáið pólitískt fríspil til að gera það.


mbl.is Skapi þjóðarsátt um lánin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gengistryggðu lánin eru mál þeirra sem þau tóku og lánveitenda þeirra. Koma öðrum ekki við. Alls ekki skattgreiðendum.

Þeir sæki sinn rétt til lánveitenda - og ef þarf dómstóla - sem rétt eiga. Þannig virkar réttarkerfið. Framkvæmdavaldinu kemur málið ekkert við.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 21.6.2010 kl. 22:34

2 Smámynd: Sigrún Aðalsteinsdóttir

Það að hver lánþegi sæki sinn rétt leiðir bara til þess að dómskerfið stíflast og niðurstaðan verður algjört ófremdarástand.

Sigrún Aðalsteinsdóttir, 21.6.2010 kl. 23:03

3 Smámynd: Hammurabi

"Skekkjan er vitanlega sú að þau voru lang-hagstæðust" er ein versta lína sem ég hef lesið. Það kom nú aldeilis á daginn að þessi lán voru ekki hagstæð. Það á væntanlega eftir að breytast, þar sem lögin voru sett til að vernda hálf þroskahefta áhættufíkla til að eyðileggja fjárhag sinn. Ætli undirritaður þurfi ekki að greiða fyrir þá sem minni mega sín andlega, og tóku slík lán, eins og hann greiðir fyrir þá sem minna mega sín líkamlega í gegnum velferðarkerfið.

Hammurabi, 22.6.2010 kl. 13:26

4 Smámynd: Sigurður Haraldsson

Það þarf engin að veltast í vafa um það að með þessum dómi gegn fjármálafyrirtækjunum þá eru endalokin ekki fjarri seinna hrunið er orðið að veruleika!

Sigurður Haraldsson, 22.6.2010 kl. 14:44

5 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Baldur, Sigrún, þetta er þegar komið í gang með málaferlum umbjóðenda Sigurðar G og það er vel.

Hammurabi, þetta er að hluta til rétt hjá þér. Ég er með svona lán án þess að hafa haft hugmynd um það fyrr en undir það síðasta að þau væru olögleg. Þetta á líklega við um all-flesta myntkörfulántakendur. Þessi lán voru sett upp til að vera hagkvæmur kostur og ef glæpamennirnir í bönkunum hefðu ekki unnið leynt og ljóst gegn landi og þjóð hefðu þau að sjálfsögðu verið það áfram. Það gerði líklega enginn lántakandi ráð fyrir að allt hagkerfi og fjármálakerfi þjóðarinnar myndi sundrast eins og það gerði. Ég hef ekki kvartað undan þessum lánum og hafði ekki hugsað mér að gera það því að ég vissi sem var að þetta var samningur sem ég gerði vitandi. Ég gerði ráð fyrir gengissveiflum og ég gerði líka ráð fyrir að gengið myndi smátt og smátt síga en það bara hefði ekki átt að skipta máli. Restin af hagkerfinu myndi fylgja í humátt og kjaramunurinn á verðtryggðum og gengistryggðum lánum myndi haldast hagstæður. Það er bara ekki svo þegar allar forsendur og gott betur fara langt umfram verstu mögulegu spádóma.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 22.6.2010 kl. 15:06

6 Smámynd: Hammurabi

Mjög gott og málefnalegt svar. Ég reyni að gera slíkt hið sama.

"að sjálfsögðu verið það áfram." það er ekki sjálfgefið, en vafalaust líklegt. Áhættan var meiri, og það var vitað fyrirfram. Við skulum ekki gleyma, þegar talað er um glæpamennina í bankanum (ath. er ekki ósammála því að þeir eru glæpamennt), að þeir sem tóku slík lán, voru einnig að taka sér stöðu gegn krónunni, og því etv. hluti þeirra sem voru að níðast.

Hitt er að lánin voru okur, og á því fellur dómur hæstaréttar. Það er ljótt að okra á neytendum, og því eru allir sammála. Hvað taki við er um vanda að spá. Mitt persónulega mat er að ríkisstjórninni kemur þetta nákv. ekkert við, enda er þarna samningur tveggja aðila. Þetta fór úr því að vera dómsmál, í að vera lögreglumál. Lögin eru merkilega skýr varðandi það hvað taki við. Að öðrum kosti getur þetta bara þýtt riftun samnings, og viðkomandi þá endurgreiði sömu verðmæti og hann fékk í upphafi. Verðbólga er það mælitæki sem notað er á rýrnun verðgildi þeirra króna sem fóru í millum aðilanna, og því eðlilegt að höfuðstóllinn verði endurgreiddur í krónum og aurum að teknu tiliti til verðbólgu. Hvernig fyrrv. lántaki fjármagnar þá riftun, er síðan undir hverjum og einum komið.

Hammurabi, 22.6.2010 kl. 15:31

7 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Rétt, það var kannski ekki 100% sjálfgefið en forsendurnar þurftu að bresta langt umfram það sem hægt var að gera ráð fyrir að gæti gerst.

Endurgreiðslurnar voru okur og á þessu okri þénuðu bankarnir á tá og fingri. Bankarnir segjast hafa fjármagnað þessi útlán með erlendum lántökum yen á móti yeni, framki á móti franka en ég leyfi mér að efast um það. Ef svo er bitnar þessi dómur Hæstaréttar að sjálfsögðu á fjármögnunarfyrirtækjunum. En ef ekki eru þau löngu búin að fá greiðslur langt umfram það sem þeim bar.

Lögin eru skýr hvað þetta gengistengingarákvæði varðar og dómurinn fjallar eingöngu um það. Annað í lánaskilmálunum stendur. Hvorugur aðili getur rift þeim atriðum sem eftir standa. Ég man umræðuna um kynslóðirnar á undan minni sem tóku óverðtryggð lán í lange baner. Þegar við síðan tókum uppá því að vísitölubinda endurgreiðslu lána datt engum, merkilegt nokk, í hug að skella einhverri vísitölu á þau lán sem höfðu þegar verið tekin þó að forsendubrestur í formi verðbólgu skylli á. Nei, þannig var það að það sem brann upp í verðbólgu greiddi ég.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 22.6.2010 kl. 16:30

8 Smámynd: Hammurabi

Lögin eru skýr, líkt og þú réttilega bendir á, og lánin verða sem afleiðing á lægstu óverðtryggðu vöxtum seðlabankans, sbr. 4.gr laga nr. 38 frá 2001. Sem hafa verið í kringum 10-20% á ári. Það er útséð að "samningurinn muni halda sér að öðru leiti" enda segja lögin hið gagnstæða.

Gamli verðbólgudraugurinn var myrtur með lögunum sem sett voru, og síðar endurskoðuð, og gilda nú í þessar mynd http://www.althingi.is/lagas/138a/2001038.html

Bankarnir og fjármögnunarfyrirtækin voru ekki að "þéna á tá of fingri", eins og kom frekar óskemmtilega í ljós þegar mér var sendur gíró fyrir ævintýramennsku bankamannana, mölbrotið og gjaldþrota bankakerfi.

Innlendar lánalínur lokuðust að mestu, og þá hófu bankarnir sókn í erlend lán, sem þau síðan áframlánuðu fólki. Þetta hátterni, lánveitanda OG lántaka, spilaði einn stærast þáttinn (sbr. skýrslu Alþingis) í hruninu. Þeir sem tóku þessi lán réðust á gjaldmiðilinn minn (íslensku krónuna), sem því sjálfu virtist slétt sama um enda að "fokgræða" á lágvaxta gjaldeyrislánum sínum.

Það var og, sagan endaði þannig, að þeir sem réðust á krónuna af öllum sínum mætti, enduðu á að tapa mest þegar kom að því að undirritaður og fleiri góðir og gegnir gátu ekki lengur staðið undir neyslubrjálæði hinna sem allt vildu kaupa á annarra kostnað. Dómur hæstaréttar snýr þessu vafalaust við, og lætur þá sem sýna ráðdeild, borga fyrir herlegheit hinna. Eða eins og skaldið sagði "Same shit, different day".

Hammurabi, 22.6.2010 kl. 17:16

9 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Ég held það sé langt í frá gefið að fyrst gengistryggingin reyndist ólögleg þá fái kröfuhafarnir bara eitthvert annað vaxtatól til að nota. Síst af öllu þar sem allsendis er óljóst hvaða tól það ætti að vera. Vísitala neysluverðs er afspyrnu vitlaus og byggð á röngum grunni og viðvarandi gömlum neyslutölum og viðvarandi gömlu neyslumynstri þannig að ekki er það nothæft tól.

Lögn segja bara það að það vaxtatól sem notað var er ólöglegt og annað ekki. Því er ekki hægt að gefa sér það að annað í þessum lánasamningum eigi að endurskoða eða breyta forsendum á einhvern máta sem lögin skýra ekki.

Mín lán voru ekki tekin til að kosta neyslubrjálæði sem t.d. má sjá á því að ég á ekki flatskjá eða fellihýsi. Mitt bílalán er venjulegt vísitölubundið lán sem hefur hækkað hratt. Mín lán voru tekin til að stoppa í þau göt sem húsnæðislánakerfið skildi eftir og voru til þess að ég gæti komið mér upp þaki yfir höfuðið. Ég fór ekki á neyslufyllerí og það meðal annar skýrir þá litlu samúð sem ég hef með mönnum eins og Bubba sem hellti sér í neyslu og gróðagír er vælir núna og skælir undan vondu mönnunum í bönkunum sem réttu honum allan þennan pening.

Þegar ég tók þessi lán þá var ég að sýna ráðdeild og taka þann lánakost sem var hagstæðastur og ef bankinn sá sér hag í því að veita slík lán þá fannst mér það góður kostur. Ég hef ekki heyra um þann banka sem lánar pening án þess að fá eitthvað fyrir það. Ekki grunaði mig að þarna væri neitt gruggugt á ferðinni og því tók ég svona lán að vel athuguðu máli.

Dómurinn sneri öllu þessu við og mér finnst það athyglisvert hve vel menn segja að fjármálafyrirtækjunum muni ganga að standa þetta af sér. Segir mér það eitt að fjármögnun nýju bankana gerði ráð fyrir þessari niðurstöðu og því þarf Stjórnin ekki að grípa til höfuðstólslækkana vegna þessara lána. Sjáum til með hin. Einnig virðist hinum fyrirtækjunum hafa vegnað nægilega vel undanfarið til að þau munu komast í gegnum þennan skafl.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 22.6.2010 kl. 17:53

10 Smámynd: Hammurabi

Lögin eru nokkuð skýr hvað þetta varðar, og að falli niður ólögmæt gengistenging, komi í staðinn lægstu óverðtryggðu vextir seðlabankans. Það stendur í lögunum, þannig er það bara.

Lán eru tekin þegar fólk hefur ekki efni á einhverju tilteknu, þessvegna þarf það lánið. Erlendis tekur fólk ekki lán fyrir bílum, enda eru bílar ekki nauðsin heldur neysla.

Að taka gjaldeyrislán var ekki ráðdeild, heldur þvert á móti. Það var einmitt ástæðan fyrir því að Hæstiréttur dæmdi sem hann dæmdi, þar sem lán með slíkri gengistryggingu var okur. Ekki bara slæmt lán, heldur okur. Sýnist þar að auki ekki hafa verið beint eitthvað gruggugt á ferðinni, heldur einvörðungu óvandvirk vinnubrögð hjá þeim sem gerðu þessa tilteknu samninga. Þ.e.a.s. í stað þess að lána beint gjaldmiðilinn að gengistryggja lán.

Mjög skiptar skoðanir eru á því hver afleiðingin verður fyrir bankana. Varðandi það gengi sem lánin voru færð yfir á til nýju bankanna, þá voru forsendurnar þar skert greiðslugeta fólks, ekki var tekið tillit til þessa dóms fyrirfram.

Margir sem tóku gjaldeyrislán voru að gera það að yfirlögðu ráði. Og við skulum ekki gleyma því að þeir sem tóku gjaldeyrislán fyrir 2004 standa betur að vígi með sín lán en þeir sem tóku samsvarandi lán í íslenskri mynt.

Ekki eru enn öll kurl kominn til grafar í þessu máli, og það verður skemmtilegt að fylgjast með þjóðfélagsumræðunni. Engin þeirra athugasemda sem ég hef sett hér inn eru meint niðrandi til þín, enda tel ég bloggið þitt hið skásta (þó svo ég sé oftast ósammála þér) og mark á þér takandi.

Hammurabi, 22.6.2010 kl. 18:28

11 Smámynd: Ólafur Tryggvason Þorsteinsson

Í hvaða lög vísar þú þegar þú segir " ...og að falli niður ólögmæt gengistenging, komi í staðinn lægstu óverðtryggðu vextir seðlabankans."? Þetta hef ég ekki séð í lagatexta og finnst forvitnilegt. Mig langar að sjá þessi lög.

Það að taka myntkörfulán var að sjálfsögðu ráðdeild. Mig vanhagaði um peninga og ég tók það lán sem mér bauðst hagstæðast. Hefði ég ekki gert það hefði ég ekki verið að leita bestu leiða til að fjármagna mitt heimili á besta máta. Hæstiréttur dæmdi á þennan veg vegna þess að lögin segja einfaldlega efnislega að ekki má tengja endurgreiðslur Íslenskra lána við daggengi erlendra gjaldmiðla. Annað ekki. Ekki er tekið mið af hagkvæmni eða þjóðhagslegum niðurstöðum þessara orða í lögunum enda er það ekki í verkahring Hæstaréttar.

Bankarnir munu fara misvel út ur þessu en Björn Þorri lögfræðingur ásamt fleiri lögfræðingum og hagfræðingum voru búnir að banda stjórnvöldum á að þetta yrði niðurstaðan og þvi voru stjórnvöld búin að taka þetta með í reikninginn við endurfjármögnun nýju bankanna. Hækkun þessara lána leiddi til skertrar greiðslugetu, meðal annars, og þess vegna var vissulega tekið tillit til þessara lána við endurfjármögnunina. Lánasöfnin voru flutt milli gömlu ognýju bankanna á verulegum afslætti vegna þess að ljóst var að stór hluti þessara (og sem afleiðing annara) lána myndi  lenda í greiðslufalli. Við þessu var brugðist fyrirfram þar sem þetta er búið að vera ljóst tiltölulega lengi.

Í útlöndum taka menn vissulega lán til að kaupa sér bíl. T.d. á General Motors GMAC sem er fjármögnunarfyrirtæki sem lánar kaupendum GM bíla fyrir kaupunum. Í útlöndum eru margt öðru vísi en hér og það er stærri umræða en passar í þetta spjall.

Ég tek þínar athugasemdir ekki persónulega þó við séum ekki sammála. Meðan fólk hefur eitthvað skynsamlegt til málanna að leggja finnst mér holt að heyra sjónarmið þess. Ég er ekkert betri en margir aðrir þegar kemur að því að missa út úr sér hluti en ég reyni jafnframt að vera sjálfum mér samkvæmur þó umfjöllunarefnið snerti stundum þá sem ekki deila mínum skoðunum eða lífssýn.

Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 22.6.2010 kl. 20:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband