Færsluflokkur: Bloggar
30.11.2007 | 11:41
Meiningin góð en aðferðin afleit
Varðandi frétt á mbl.is: Unnið við að setja upp síur fyrir myndefni á netinu
Nokkuð er síðan ég stofnaði þennan blog aðgang og tilkynnti heimavið, með nokkurri viðhöfn, að ég væri byrjaður að blogga. Það hefur ekki gerst fyrr en nú.
Það sem þessu veldur eru þessi áform yfirvalda um að setjast við hlið mér þegar ég nota tölvu og horfa góðlátlega yfir öxlina á mér til þess að ganga úr skugga um að ég sé nú örugglega ekki að gera neitt af mér. Mér mislíkar það stórlega. Í mínum huga er það vissulega eitt af hlutverkum Ríkisins að vernda borgarana hvern fyrir öðrum. Vandamálið er bara að það er ekki sama hvernig það er gert og hvað er gert í þeim tilgangi.
Síst ætla ég að verja gerðir þeirra sem til samans eru kallaðir barnaníðingar. Það eru einnig all-margir aðrir hópar í okkar þjóðfélagi, og öðrum, sem ég hef megnasta ímugust á. Mér dettur samt ekki í hug að fá Ríkið í lið með mér til að stemma stigu við því hroða sem frá þeim hópum stafar.
Í þessu samhengi er vandamálið þetta. Ef fréttin af þessu er rétt skrifuð má skilja málið sem svo að Ríkið, í samvinnu við Barnaheill, ætli að "... koma upp síum á myndefni, sem ætti að koma í veg fyrir dreifingu á netinu á myndum, sem tengjast ofbeldi á börnum og barnaklámi." (hvað sem nú fellur undir skilgreininguna sía). Þetta er ekki hægt.
Hugtakið sía er hægt að nota á marga vegu og það getur þítt marga hluti. Ef um er að ræða svonefnda svarta lista (e: Blacklist) sem loka aðgengi að vefsíðum sem á þessum listum eru, og sem falla undir þá skilgreiningu sem hér um ræðir, er það alkunna að þeir sem stunda þá iðju að framleiða þetta efni koma sér upp öðrum dreifileiðum til að skiptast á þessu efni. Það er allt hægt ef viljinn er fyrir hendi. Svona síur slá einungis tímabundið á birtingu á því efni sem ekki má birtast en koma alls engan veginn í veg fyrir að þeir sem það vilja miðli efninu sín á milli. Þessi aðferð hlífir ekki einu einasta barni frá því að verða fórnarlamb þessa fólks. Kannski geta þessar aðferðir haft þveröfug áhrif. Það er oft þannig að hlífar sem settar eru upp vekja öryggi með þeim sem hlífunum treysta og fólk sofnar á verðinum. Þessum hlífum er oft illt að treysta þar sem öryggi þeirra er hreint ekki fullkomið heldur er í réttu hlutfalli við þá athygli sem þær fá hjá þeim sem sjá um viðhald þeirra. Sko, vandamálið er þetta. Ég á ekki von á að starfsmaður Ríkislögreglustjóra eða Barnaheilla muni sitja yfir því í hluta- eða fullu starfi að skoða vefsíður og meta hvort þær flokkist sem ofbeldi á börnum eða barnaklám. Eins gott og vel meinandi og þetta fólk er þá einfaldlega treysti ég þeim ekki til þess að meta þetta. Einhver kann að segja að þeirra mat geti hugsanlega verið eitthvað lítilsháttar skakkt og eitthvað af því sem lendir á svörtum lista verði kannski ekki klárlega barnaklám heldur kannski bara svona venjulegt klám, og það sé bara líka í lagi að það festist í síunum. Ég get svosem alveg tekið undir það sjónarmið en, sjáið til, þá erum við komin út fyrir það efni sem til stóð að stoppa. Við erum ekki komin langt af leið ennþá, eða hvað? Fyrst við erum farin að svartlista smávegis af svona almennu klámi er ekki úr veginum að taka það bara allt með líka. Kannski er það líka rétt, eða hvað? Mörg okkar geta ábyggilega sætt sig við það að fyrst við losnum við allt þetta klám líka sé svo sem í lagi að stöku vefur sem birtir það sem almennt er kallað ljós-blátt efni fljóti með. Hver skaðast af því? Tja, ekki ég, eða hvað? Hver á að meta fyrir mig, eða þig, hvar þessi mörk liggja. Þegar hingað er komið erum við komin all-langt frá því að ...að koma í veg fyrir dreifingu á netinu á myndum, sem tengjast ofbeldi á börnum og barnaklámi og það veldur mér áhyggjum. Ekki vegna þess að einhverjir þarna úti missa einhvern fjárhaglegan spón úr aski sínum við þessar eftirlitsaðgerðir heldur vegna hins að við höfum lagt af stað í ákaflega skakka átt á kolröngum forsendum. Þessar kolröngu forsendur eru þær að Ríkið geti komið í veg fyrir barnaklám og ofbeldi gegn börnum úti í heimi (eða hérlendis) með ritskoðun á Internetinu. Líklega stendur ekki til að hérlendis verði fólk sem starfar við það að viðhalda þessum svörtu listum, því miður. Sjáðu til, einhver verður að gera það og þá treysti ég landanum ekkert síður en einhverju fólki erlendis. Hugsanlega er hægt að láta tölvur um að skima myndefni (myndskeið meðtalin) og texta en þá er hættan á óeðlilegu inngripi enn meiri en ef þetta er gert handvirki og ég er ekki meira út í það.
Við þessar kringumstæður er erfitt að rökræða þessar fyrirætlanir Ríkis, Barnaheilla og Norrænna Dómsmálaráðherra. Fyrsta tilsvar er oftar en ekki það vilja náttúrulega allir stöðva barnaklám, er það ekki? Svarið er líkast til afdráttarlítið jú en það er ekki það sem þetta mál snýst um. Þetta snýst ekki um barnaklám og ofbeldi gegn börnum. Þetta snýst um að leyfa yfirvöldum að horfa yfir öxlina á mér og leiða mig um refilstigu daglegrar tilveru. Ég efast ekki vitund um að þeim sem á bak við þetta standa gengur fyllilega gott eitt til og ég þakka þeim öllum fyrir að hafa kraftinn, viljann og hjartalagið til að vernda börnin mín og annarra en ég get ekki gengist inná það að opna fyrir ritskoðum Ríkisins á allri netumferð á Íslandi á þessum forsendum eða neinum öðrum.
Hefðu forsendurnar verði þær að Ríkið setti upp síur til að fylgjast með því að ekki væri illa talað um Björn Bjarnason á Netinu, þann annars mæta mann, myndi engum detta í huga að hugsa þá hugsun til enda. Það væri upphaf ritskoðunar á öðrum en alveg jafn röngum forsendum.
Ósk mín núna er sú að fólk sé mér sammála og láti vel í sér heyra á til þess hæfum vettvangi og að þessi varnaðarorð rati inn á borð þeirra sem um þetta véla.
Það eru ýmis ráð sem fólk getur gripið til í þeim tilgangi að vernda börn sín gegn illsku Internetsins en ekkert þeirra virkar hálft á við það að vera fyrri til að upplýsa börnin um vonskuna og hvernig börnin eiga að passa sig sjálf. Við verðum einfaldlega að vera vakandi yfir velferð barnanna sjálf en ekki treysta á að Ríkið komi heim í stofu okkar og svefnherbergi og sinni þessum gæslustörfum sem eru á okkar ábyrgð meðan við sitjum dofin yfir sjónvarpinu og trúum að því að Stóri Bróðir sé að passa.
Unnið við að setja upp síur fyrir myndefni á netinu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)