11.11.2009 | 12:56
Endurbæturnar holdi klæddar
Eitt af helstu ádeilu- og hitamálum undanfarinna missera hefur verið hvernig ríkjandi stjórnvöld á hverjum tíma hafa hyglt fólki sem talið hefur verið þeim handgengið eða á einhvern máta tengt. Ráðningar hliðhollra og innvígðra hefur sviðið þjóðina og þeim hefur verið mótmælt hástöfum. Nýverandi valdhafar hafa farið þar fremst í flokki á undanförnum árum. Þetta hefur verið kallað spilling og hana ætluðu núverandi valdhafar að uppræta.
Núna kveður við annan tón hjá skinhelgum valdhöfunum. Nú eru forsvarsmenn hliðhollra pólitískra ungliðahreyfinga og aðrir nánir pólitískir jámenn ráðnir holt og bolt. Ráðningarnar eru kallaðar tímabundnar svo ekki þurfi að vesenast í tafsömu auglýsingavafstri. Bjástri sem gæti komið í veg fyrir að "rétt" fólk ráðist í laus störf hjá Vinstri-grænum og fylkingunni bara út af einhverjum leiðindum eins og þeim að hæfari einstaklingar sæki um laus störf.
Ég velti fyrir mér hvað olli þessum sinnaskiptum.
Það er þjóðinni alkunna hvernig Steingrímur "skatthækkandi" Sigfússon hefur snúið algerlega ofan af sínum stærstu baráttumálum og sannfæringum fyrri ára varðandi ICESAVE og ESB til þess eins að haldast í ráðherrastóli. Því ætti þetta nýjasta útspil hans og samráðherra kannski ekki að koma mér svo mjög á óvart.
Athyglisverð sinnaskipti og óvænt hve fáa silfurpeninga þarf til að þessi skelfilega vinstristjórn leggi niður sínar sannfæringar og taki upp þau vinnubrögð sem þetta fólk hefur gagnrýnt hvað harðast.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.