29.9.2015 | 09:56
Samviskufrelsi
Þessa dagana liggur þungt á þjóðinni það sem kallast samviskufrelsi. Hér sér fólk einhvers konar árekstur milli réttinda samkynhneigðra til að ganga í hjónaband og réttinda presta til að fremja ekki þá athöfn sem í slíkri hjónavígslu felst.
Hér virðast afar margir ruglast á hlutum, nema ruglingurinn liggi hjá mér. Annað eins hefur gerst og þá þarf bara að rétta hjá mér kúrsinn með umræðu og útskýringum.
Samkynhneigðir hafa löglegan rétt til að ganga í hjónaband. Þetta er hægt að fá á löglegan hátt hjá nærliggjandi sýslumanni og fleirum. Samkvæmt 16. - 20 grein hjúskaparlaga má sjá að prestar, forstöðumenn og löggiltir umboðsmenn trú- og lífsskoðunarfélaga og sýslumenn eru það fólk sem hefur lagalegan rétt til að pússa fólk saman í hjónaband burtséð frá kynhneigð.
Hvað er það sem umræðan snýst um? Starfandi biskup fullyrðir að prestar megi neita fólki um þessa vígslu ef slíkt brýtur gegn samvisku þeirra. Þessu er innanríkisráðherra núna ekki lengur sammála þó að hún hafi 2009 flutt frumvarp þess efnis að prestum og vígsluumönnum trúfélaga væri ekki skylt að veita þessa þjónustu. Ráðherrann lætur hafa eftir sér En ef prestur er, eins og núna, opinber embættismaður og athöfn hans hefur áhrif samkvæmt lögum þá er mjög hæpið fyrir hann að fara að mismuna mönnum á grundvelli kynhneigðar. Prestar eru opinberir embættismenn og halda á veraldlegu valdi líka,
Lestu þetta aftur "Ef prestur er, eins og núna, opinber embættismaður..." Vill ráðherrann meina að prestar hafi ekki verið opinberir embættismenn 2009 en hafi breyst í slíka núna?
Hjónavígsla, framkvæmd af þar til löglegum einstaklingi, hefur mjög mikið lagalegt gildi. Í vígslunni felast alls kyns veigamikil réttindi fyrir hjónin og þeirra afkomendur, og má þá einu gilda hvers konar löglegur einstaklingur framkvæmir vígsluna. Athöfn sem fer fram í kirkju er algerlega á pari við slíka athöfn í hofi eða mosku frá lagalegum sjónarhóli. Algerlega sami löggerningurinn. Eini munurinn er að einstaklingurinn sem framkvæma þessar athafnir í trúarlegum kringumstæðum kryddar þær með alls kyns kennisetningum, prjáli og andlegri innrætingu sem litast af því í hvaða tegund af heimsbjargarhöll athöfnin fer fram, en hinn heldur sig við lagabókstafinn. Athöfnin litast af því hvort um er að ræða kirkju, hof, mosku eða skrifstofu. Lagalega gildið er það sama, innrætingin, skrautið, og athöfnin misjafnt.
Ráðherrann getur bara alls ekki neytt prest, frekar en goða eða imam, til að brjóta gegn sinni samvisku sem búið að að gegnsýra með hindurvitnum og þvaðri frá æsku. Ef trúarforkólfur neitar að framkvæma hjónavígslu á það engu máli að skipta hvaðan launaseðillinn kemur. Vandamálið liggur í því að þetta fólk telur að vofa almættisins geti reiðst ef fólki sem laðast að fólki af sama kyni er miðlað af guðlegri miskunn og blessun. Ég ætla ekki að eyða plássi í umfjöllun um tvískinnung, hroka og mannfyrirlitningu hér en hugsa bara mitt og læt þig um þína skoðun á því.
Hvað gengur fólki annars til. Ef einhver preláti í hempu eða kjól vill ekki annast vígsluna, vill fólk þá virkilega láta viðkomandi sjá um hana þvert gegn þeirra vilja? Hinu megin á sama peningi, getur ríkislaunaða kirkjan ekki uppdiktað einhverja athöfn með svipuðu sniði og núverandi hjónavígsla sem sneiðir hjá því að neyða þannig þenkjandi presta til að minnast á hjónaband upphátt?
Sjálfur ber ég ekki snefil af virðingu fyrir trúarbrögðum af neinni tegund, en meðan þessi firra viðgengst er mikið einfaldara að finna einhvern meðalveg sem veitir einum það sem hann vill án þess að særa hinn. Hér hlýtur að finnast einhver meðalvegur sem báðir geta sætt sig við án þess að réttindi eða réttlætiskennd þurfi að vera fótum troðin.
Athugasemdir
Góð samantekt hjá þér og nýr flötur á þessu erfiða máli. En að mínu mati fer nú ekki mikið fyrir mannúðinni og fordómaleysinu hjá þeim prestum sem sjá ekki manneskjurnar eins og þær eru, heldur hvernig þær eru stefndar gagnvart kyni. Svo eru líka margir prestar sem gera þessa þjónustu með glöðu geði, það hlýtur að vera hægt að finna slíkan, eða má heldur ekki fá annann prest inn í kirkjuna sem er í sókn viðkomandi?
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2015 kl. 10:21
Rétt er það. Það fer lítið fyrir mannúðinni hjá þeim prestum sem telja sig ekki geta annast þessar athafnir samvisku sinnar vegna.
Það er ekkert vandamál að fá annan prest í viðkomandi kirkju. Þetta krefst leyfis viðkomandi sóknarprests og þeir eru vart svo illa innrættir að þeir neiti öðrum presti að klára málið.
Ólafur Tryggvason Þorsteinsson, 29.9.2015 kl. 10:34
Nei það er reyndar frekar ótrúlegt. Þá skil ég ekki alveg vandamálið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.9.2015 kl. 12:25
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.