Á móti er slök ástæða

Þegar við veljum okkur forseta úr hópi frambjóðenda í boði fyrir næstu forsetakosningar er viðbúið að hver kjósandi, með nokkurn áhuga á málinu fari yfir kosti og stefnumál hvers frambjóðanda fyrir sig og velji síðan þann frambjóðanda sem best uppfyllir kröfur okkar og best leggst að þeim hugmyndum sem við gerum okkur um forseta Íslands hvert og eitt.

Þetta reyni ég að gera og  reyni að láta annað ekki hafa áhrif á mig.

Ég er ekki á móti Herdísi Þorgeirsdóttur. Hún er hæfileikaríkur frambjóðandi með þekkingu og reynslu sem myndi sóma sér hvar sem er. Vel menntuð og nýtur virðingar fyrir sín störf.

Ég er ekki á móti Ara Trausta Guðmyndssyni. Traust, rólyndi og þekking. Hvort það sem hann hefur fram að færa og hversu vel það hentar mér er kannski annað mál.

Ég er ekki á móti Andreu. Þar fer frambjóðandi sem er búin að standa sig margfalt betur í hagsmunabaráttu fyrir heimilin heldur en stjórnvöld og það er þess vegna sem ég vil ekki fyrir nokkurn mun missa hana úr þeirri baráttu. Þá baráttu getur, og má, forseti landsins ekki háð í trássi vð stjórnvöld og hagsmunaaðila atvinnulífsins.

Ég er ekki á móti Hannesi Bjarnasyni, hver er það annars. Ég þarf að skoða hann nánar.

Ástþór. Ástþór virðist bara vera á móti sjálfum sér og tekst betur en nokkrum öðrum í sögu þjóðarinnar að minnka fylgi sitt hvert skipti sem hann býður sig fram. 

Ólafur Ragnar. Hvers vegna ætti ég að vilja kjósa hann? Maðurinn er í hagsmunagæslu fyrir sjálfan sig og engan annan. Meðan mulið er undir hann og demantaprinsessan hans fær að fljúga í einkaþotum á tískusýningar í London mun hann halds sínu - SÍNU - striki. Það sem hentar ÓRG er dagskipun hans. Hvernig getur fólk verið svo andvaralaust að halda að hann standi fyrir einhverja hagsmuni aðra en sína eigin. Það að hann stóð uppi í hárinu á núverandi ríkisstjórn í ICESAVE þíðir ekki að hann sé kominn í lið með hagsmunabaráttu hægrimanna (gleymum ekki frammistöðunni varðandi fjölmiðlalögin). Allir frambjóðendurnir hafa sagt að þau muni tryggja að þjóðin komi að ESB ákvörðun og það er því ekki vísbending að hann muni gera eitthvað sérstaklega til að breyta gangi í niðurstöðu þess máls. Hann getur ekkert annað en neitað lögum staðfestingar og hefur, eins og aðrir frambjóðendur, sagst myndu tryggja að Alþingi komist ekki upp með að samþykkja neitt í því samhengi sem þjóðin hefur ekki verið spurð að.

Þóra Arnórsdóttir er skörp, hófsöm, vel menntuð og yfirveguð. Hún er ekki frambjóðandi fylkingarinnar frekar en neins annars stjórmálaafls. Það að gefa í skyn að kostningamaskína fylkingarinnar og ESB-sinna hafi hrokkið í gang þegar Þóra ákvað að bjóða sig fram er hrein vitleysa. Þar á milli eru einfaldlega engin tenging og í hópi stuðningfólks Þóru er fólk úr öllum stjórnmálaflokkum. Þóra vill vinda ofan af þeirri vitleysu og sundrungu sem núverandi forseti hefur komið af stað meðal landsmanna, ekki auka. Hún hefur verið gagnrýnd fyrir að gera ekki grein fyrir afstöðu sinni í einstökum þjóðmálum. Það gerir hún vegna þess að hún telur, eins og ég, að það eigi ekki að vera hlutverk forsetans að vera baráttuafl fyrir einhverjum dægurmálum og að það sé ekki hlutverk forsetans að vera í einhvers konar stjórnar stjórn. Forseti eigi ekki að hafa sig í frammi við að leggja ríkistjórn línurnar. Forseti á ekki að hóta ríkisstjórn landsins ljóst og leynt að fram fyrir hendur hennar verði tekið ef niðurstaða hennar í einhverju máli gengur í berhögg við einhverja stjálfstæða stefnu forsetans. Þetta hefur Þóra lagt áherslu á og vill því ekki að hennar afstaða til einhvers máls eða málefnis sem er í deiglunni í dag hafi áhrif á kjörfylgi hennar. Þegar þras dagsins hefur verið til lykta leitt taka við önnur mál sem hún er ekki spurð út í í dag og því ekki hægt að byggja kjörþokka hennar í dag á afstöðu til mála sem tekist er á um í dag, þegar líkast til verða önnur mál sem þjóðfélagið mun takast á um á morgun. Þegar áherslan forsetans er á sameiningu og sátt er affararsælast að halda skoðunum á átakamálum til hlés því afstaða í rifrildi dagsins gefur ekki vísbendingu um ákvarðanir í deilum morgundagsins. Ef áherslan er á sátt frekar en sundrungu er ég tilbúinn að leggja við eyrun og leggja máli lið. Það er mín hugmynd um enbætti forseta Ísland.

Sátt er hugmynd Þóru Arnórsdóttur um embætti forseta Íslands. Aðhald stjórvalda á að koma í formi beins lýðræðis sem, til dæmis, er auðveldlega hægt að koma á með rafrænum kosningum og því gefa forsetanum svigrúm til að auka samhljóm fremur en að ala á sundrungu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband