Dýrasta ljósaskilti í heimi

Núna hef ég farið í Hörpu einungis tvisvar og er dálítið hugsandi eftir það.

Fyrst var það Todmobile. Þau frábær en hljómur hreint út sagt ömurlegur á miðjum sjöunda bekk. Ég ákvað að við hefðum bara setið of nálægt og fjær hefði ábyggilega verið betra. Ok, það var vonbrigði.

Á föstudag var það svo árlegir Vínartónleikar. Fyrstu svalir fremst. Hljómsveitin beint af augum í þægilegri fjarlægð. Eilítið þunnskipuð hljómsveit með einungis 67 manns á sviði. Ný og breytt uppstilling hljómsveitarinnar með bassana sitjandi vinstra megin í stað standandi hægra megin og ýmislegt öðru vísi en áður var. Mér fannst eins og það vantaði heila hljómsveit í viðbót til að fylla salinn. Fallegur hljómur, eilítið ýktur í botninn, en óskaplega lítið af honum.

Er hljóðfólkið ekki búið að læra á salinn? Er salurinn svona erfiður? Þetta er hroðalega svekkjandi.

Þegar svo við þetta bættist frekar bragðlaust verkaval sem samanstóð að mestu leyti af ýmsum hlutum Leðurblökunnar í dauflegum flutningi velti ég fyrir mér hvort hér hafi orðið dýrt slys.

Mér finnst ljósin útvortis falleg en ef þetta hús er bara ljósaskilti hefði verið hægt að fara ódýrari leið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband