Færsluflokkur: Tónlist
18.3.2009 | 16:38
Baráttu- og bjartsýnissöngvakeppni hins nýja lýðveldis
RÚV er með í gangi eina af sínum fínu lagakeppnum. Ég er þeirrar skoðunar að þátttöku í þessari keppni hefði átt að takmarka við lagahöfunda sem ekki hafa framfæri sitt af lagasmíðum. Ég er svosem ekki búinn að forma útfærslu á þessu en ég er viss um að það er hægt.
Hvernig væri að halda einu sinni keppni sem atvinnumennirnir, sem fylla núna nánast öll sæti á þátttöku-listanum, tækju ekki þátt í. Köllum það bara áhugamannakeppni. Keppni fyrir þá sem eru ekki í bransanum (hvernig sem það svo útleggst) . Það hlýtur að vera hægt að finna góða skilgreiningu á svoleiðis hópi. Það mun sjálfsagt myndast eitthvert grátt svæði en það er bara úrlausnarefni.
Ástæða þess að ég minnist á þetta er að það laumast að mér að ekki megi móðga einhverja af þessu atvinnufólki sem sendi inn lag. Þetta lyktar dálítið af því að nefndin sem valdi lög til þátttöku hafi ekki viljað velja einn atvinnumanninn en annan ekki og á þann máta raða þeim á einhvern hátt eftir gæðum. Þetta eru allt félagar á einn eða annan hátt og því erfitt að gæta hlutleysis, sérlega þegar þátttaka er ekki undir nafnleynd.
Hvað eru t.d. Gunnar Þórðarson að hugsa með að taka þátt í þessu? Hvað þá Magnús Þór eða Jóhann G? Allir frábærir listamenn en mega aðrir ekki bara fá að komast að?
Mér finnst framtakið frábært og ljóst að í svona keppni verður til fullt af frábærri tónlist sem kannski hefði ekki orðið til annars. Þetta er það sama og mér finnst reyndar um undankeppni EuroVision keppninnar. Við ættum kannski bara að láta undankeppnina nægja. Flott tónlist sem fæðist. Annað þurfum við ekki.
Tónlist | Breytt 19.3.2009 kl. 14:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)